Forseti Úkraínu hefur tilkynnt að aðgerðir gegn hryðjuverkum í landinu séu hafnar. Mikil skothríð hefur heyrst á flugvelli í austurhluta landsins en þar hafa stuðningsmenn Rússa smám saman verið að taka völdin síðustu daga. Áð minnsta kosti ellefu eru þegar sagðir hafa látið lífið í þessum aðgerðum í dag.
Í frétt BBC segir að Oleksandr Túrtsjínov,, forseti Úkraínu, hafi tilkynnt þinginu í dag að hernaðaraðgerðir séu hafnar á Donetsk-svæðinu. Sagði hann aðgerðirnar hafa hafist á flugvelli í bænum Kramatorsk. Forsetinn segir að úkraínski herinn hafi þegar náð yfirráðum á flugvellinum.
Stjórnvöld í Kænugarði segjast einnig hafa hafið aðgerðir í bænum Slavyansk í austurhluta landsins. Þangað hefur fjöldi hermanna nú verið sendur.
Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að mikil skothríð hafi heyrst frá flugvellinum.
Dimitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði í morgun að Úkraína rambaði á barmi borgarastyrjaldar. Spennan hefur aukist í landinu að undanförnu en rússneskumælandi vopnasveitir hafa lagt undir sig ráðhús og lögreglustöðvar í um tíu borgum í austurhluta Úkraínu frá því í byrjun mars.
Túrtsjínov sakaði rússnesk stjórnvöld fyrr í dag um að reyna að hleypa öllu í bál og brand í austurhluta landsins með því að ýta undir aðskilnaðarsinna þar. Rússar neita því hins vegar staðfastlega.