Hættur eftir 20 ár á þingi

Daniel Cohn-Bendit.
Daniel Cohn-Bendit. AFP

Evrópusambandið verður að breytast í sambandsríki, þjóðríkin eru dauð og berjast verður gegn efasemdamönnum um sambandið bæði til hægri og vinstri. Þetta voru skilaboð Daniels Cohn-Bendit til félaga sinna í franska Græningjaflokknum í ræðu sem hann flutti í tilefni af því að hann er hættur á Evrópuþinginu eftir að hafa setið þar í tvo áratugi. Stóðu félagar hans upp að lokinni ræðunni og klöppuðu fyrir honum.

Þess utan er Cohn-Bendit þekktur sem einn af foringjum franskra námsmanna í stúdentauppreisninni í Frakklandi árið 1968 sem átti sinn þátt í því að þáverandi forseti landsins Charles De Gaulle fór frá völdum og settist í helgan stein. Cohn-Bendit var fæddur í Frakklandi árið 1945 en foreldrar hans voru þýskir gyðingar. Þegar De Gaulle komst að því að Cohn-Bendit væri þýskur ríkisborgari var hann rekinn úr landi.

Fram kemur í frétt AFP að Cohn-Bendit hafi í seinni tíð verið þekktur yfir að segja skoðanir sínar umbúðalaust. Í ræðunni gagnrýndi hann einnig Þýskaland harðlega fyrir að draga lappirnar við að koma Grikkjum til aðstoðar í efnahagserfiðleikum þeirra. Það hafi verið mjög heimskulegt stjórnmálalega séð og óskiljanlegt í ljósi þess að tveir stærstu lánadrottnar Grikkja séu þýskir bankar.

Ennfremur gagnrýndi hann Evrópusambandið fyrir að koma ekki Úkraínu meira til aðstoðar en raun bæri vitni. Sameiginlegir hagsmunir sambandsins og Úkraínumanna ættu ekki að stjórnast af hagsmunum Þýskalands. Úkraínumenn væru að berjast fyrir frelsi og ef ekki væri staðið með þeim yrðu aðrir næstir í röðinni. 

Þá segir að Cohn-Bendit sé sannfærður Evrópusambandssinni og hafi rótgróna andúð á þjóðríkjum og þjóðernishyggju. „Evrópusambandið er framtíðin fyrir börnin okkar,“ sagði hann í ræðunni. „Eftir 30 ár verður Kína eða Indland hluti af G8-ríkjunum [stærstu efnahagsveldi heimsins] en ekki Þýskaland. Nema sem hluti af evrópsku sambandsríki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert