Maður í Flórída hefur verið ákærður fyrir að kæfa eins árs gamlan son sinn. Í ákærunni er maðurinn sakaður um að hafa kæft barnið svo hann fengi frið til að spila tölvuleiki.
Maðurinn, sem er 24 ára gamall, var heima í tölvunni daginn sem barnið lést. Drengurinn var eins árs gamall þegar hann lést. Neyðarlínan fékk tilkynningu á þriðjudaginn um að barnið andaði ekki. Barnið var flutt á sjúkrahús þar sem það var úrskurðað látið.
Faðir drengsins hefur viðurkennt að hafa verið að spila Xbox leik í tölvunni þegar drengurinn fór að gráta. Illa hafi gengið að fá hann til að hætta að gráta og á endanum hafi hann sett höndina yfir munn og nef drengsins og haldið henni þar í 3-4 mínútur. Þá hafi sér fundist barnið vera uppgefið og því lagt það niður í vögguna. Hann uppgötvaði síðar að drengurinn andaði ekki.