Skipstjóri ferjunnar handtekinn

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur skipstjóra farþegaferjunnar Sewol sem sökk í Gulahafi við Suður-Kóreu í fyrradag. Komið hefur í ljós að hann var ekki sjálfur við stjórnvölinn þegar ferjan sökk.

Flestir farþeganna um borð voru ungir nemendur gagnfræðaskólans Danwon í úthverfi Seoul og kennarar þeirra. Staðfest er að 28 eru látnir, en 268 er enn saknað og þykir ólíklegt að nokkur finnist á lífi úr þessu. Erfiðar aðstæður eru nú til leitar vegna lítils skyggnis og sterkra strauma.

Aðstoðarskólastjórinn svipti sig lífi

Foreldrar og nærsamfélagið eru í áfalli vegna slyssins og bárust fréttir af því í dag að aðstoðarskólastjórinn hefði svipt sig lífi í kjölfar fregnanna. Maðurinn, Kang Min-Kyu, var sjálfur um borð í ferjunni en komst lífs af.

Skólanum er lokað í dag en fjöldi nemenda hefur engu að síður verið í skólabyggingunni til að leita frétta og styrks hvort frá öðru. „Ég trúi því að þau séu enn á lífi og komi aftur,“ hefur Afp eftir einum nemenda skólans, Lee Min-Yong.

Nemendur hengdu upp bænir og kveðjur til þeirra sem er saknað í skólanum í dag.

Framferði skipstjórans rannsakað

Rannsakendur skoða nú einkum hvers vegna ferjan tók skarpa beygju áður en henni hvolfdi og hún sökk. Einnig er skoðað hvort skipstjórinn hefði getað stuðlað að björgun mannslífa með því að fyrirskipa rýmingu ferjunnar.

Auk skipstjórans hafa saksóknarar farið fram á handtökuskipun á hendur tveimur öðrum úr áhöfn vegna gruns um gáleysi við stjórn ferjunnar.

Skipstjórinn, Lee Joon-seouk, kom fram í sjónvarpsfréttum í Suður-Kóreu í gær og baðst afsökunar. „Mér þykir þetta afar leitt og skammast mín mjög. Ég veit ekki hvað ég get sagt,“ sagði hann.

Björgunaraðgerðir undan eyjunni Jindo við Suður-Kóreu.
Björgunaraðgerðir undan eyjunni Jindo við Suður-Kóreu. AFP
Björgunaraðgerðir undan eyjunni Jindo við Suður-Kórue.
Björgunaraðgerðir undan eyjunni Jindo við Suður-Kórue. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert