Bandarískt herlið fer til Póllands

Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Póllands, Chuck Hagel og Tomasz Siemoniak á …
Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Póllands, Chuck Hagel og Tomasz Siemoniak á blaðamannafundi í Pentagon. AFP

Varnarmálaráðherra Póllands, Tomasz Siemoniak, sagði í dag að bandarískar hersveitir verði sendar til Póllands til að efla viðurvist Nato þar, vegna deilna nágrannaríkjanna Rússlands og Úkraínu.

Siemoniak sagði í viðtali við Washington Post að þetta sé þegar ákveðið en verið sé að fínpússa útfærsluna. Með þessu muni Pólland spila lykilhlutverk á svæðinu, undir verndarvæng Bandaríkjanna.

Líklegt er að bandarískt herlið verði einnig sent til Eistrasaltsríkjanna í tengslum við sömu áætlun, um að gera Nato sýnilegri í Austur- og Mið-Evrópu. Eftir að deila Rússa og Úkraínumanna um Krímskaga fór úr böndunum sendu Bandaríkjamenn tólf F-16 herflugvélar til Póllands, til að sýna stuðning sinn. Nú munu hersveitir á jörðu niðri bætast þar við.

Aðspurður hvort þessar aðgerðir muni draga úr spennunni í Evrópu sagði Siemoniak of snemmt að segja til um það.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Nato haldið að sér höndum við að koma upp herstöðvum í aðildarríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum, til að styggja ekki Rússa. Siemoniak vildi ekki ganga svo langt að kalla viðveru Bandaríkjahers herstöðvar í Póllandi, en sagði þó að hugsanlega séu nú ný tækifæri fyrir „hreyfanlegt herstöðvalið“.

Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Póllands, Chuck Hagel og Tomasz Siemoniak á …
Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Póllands, Chuck Hagel og Tomasz Siemoniak á blaðamannafundi í Pentagon. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert