Hringurinn þrengist í leitinni að malasísku farþegaflugvélinni MH370 á sjávarbotni, og innan tveggja daga verður honum lokað. Tímamót eru því framundan í leitaraðgerðunum.
Fjarstýrður kafbátur af gerðinni Bluefin 21 mun ljúka við að kortleggja allt leitarsvæðið eftir helgi. Hann hefur farið sex leiðangra um svæðið, hingað til án árangurs.
Leitarsvæðið er á yfir 4 km dýpi á hafsbotni í 10 km radíus út frá bletti þaðan sem bárust merki sem talin eru hafa komið frá flugrita vélarinnar, s.k. svarta kassa. Merkin berast ekki lengur, enda er talið að rafhlöður svarta kassans séu uppurnar. Þær eiga að endast í einn mánuð, en vélin hvarf 8. mars.
Hishammuddin Hussein, samgöngumálaráðherra Malasíu, segir að aðgerðir næstu tvo daga gætu ráðið úrslitum.
„Í dag og á morgun þrengjum við hringinn svo mjög að það gæti verið komið að mikilvægum tímamótum,“ sagði hann. „Ég vil biðja fólk um allan heim að biðja og biðja fyrir því að við finnum eitthvað sem við getum unnið með á næstu tveimur dögum.“
Eftir greiningu gagna úr gervihnöttum telja rannsakendur ljóst að flug MH370 hafi endað á hafsbotni, vestur af áströlsku borginni Perth. Ekki er þó enn vitað hvers vegna vélinni var flogið svo langt af leið og því er lykilatriðið að finna flugritana til að reyna að skilja hvað gerðist.
Bluefin-21 kafbáturinn, sem er fjarstýrt af bandarískum hermönnum um borð í ástralska skipinu Ocean Shield, kortleggur hafsbotninn með ómsjá. Hann er hannaður til að kafa á 4.500 metra dýpi en hefur verið endurbættur til að ná allt niður á 4.695 metra.