„Sjórinn getur ekki gleypt flugvél“

Svæðið þar sem vélarinnar er nú leitað, suðvestur af Perth …
Svæðið þar sem vélarinnar er nú leitað, suðvestur af Perth í Ástralíu. AFP

Leitin að malasísku farþegavélinni hefur nú staðið í 45 daga. Vonin um að flak vélarinnar finnist dvínar með hverjum deginum. 239 farþegar voru um borð í vélinni.

Fjarstýrður kafbátur sem nú leitar á hafsbotni hóf sína níundu ferð niður í undirdjúpin í dag. Enn hefur hann ekkert fundið sem gefur vísbendingu um hvar flakið sé að finna.

Kafbáturinn hefur nú farið yfir tvo þriðju hluta þess svæðis sem líklegast er talið að vélin sé á. Þó að mestar vonir séu bundnar við þennan hluta leitarinnar er ýmislegt annað enn reynt. 

Ástralir segja að í dag muni tugur herflugvéla og ellefu skip taka þátt í leitinni. En veðrið leikur ekki við leitarsveitirnar, frekar en fyrri daginn.

Hitabeltisstormurinn Jack er að koma sér fyrir norðvestur af leitarsvæðinu. Ekki er líklegt að hann fari yfir leitarsvæðið en áhrifa hans mun gæta engu að síður. Spáð er hvassviðri og rigningu.

Ættingjar farþeganna og annarra sem voru um borð bíða enn svara. Þau hafa hingað til verið fá. 

Í dag, mánudag, hitti malasíska ríkisstjórnin nokkrar fjölskyldur í Peking en flestir þeirra sem voru um borð voru frá Kína.

Ættingjarnir krefjast svara og eru reiðir stjórnvöldum.

Utanríkisráðherra Malasíu segist skilja að fólkið vilji svör en að hann hafi þau einfaldlega ekki.

Sumir halda enn í þá von að farþegar muni finnast á lífi. Þeirra á meðal er Mohamad Shaari, en frændi hans og eiginkona voru á leið til Peking í brúðkaupsferð með vélinni.

„Sjórinn getur ekki bara gleypt flugvél,“ segir Shaari í samtali við CNN. „Ég held að vélinni hafi verið rænt.“

Fleiri eru á þeirri skoðun. 

Vélin hvarf sporlaust þann 8. mars. Hún var á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Hvað gerðist fljótlega eftir að vélin flaug út úr malasískri lofthelgi er enn á huldu. Ljóst er hins vegar að henni var, af einhverjum ástæðum, flogið langt af leið. 

Það sem þó er vitað er þetta: Vélinni var beygt af leið. Henni var flogið í 39 þúsund feta hæð og hélt þeirri hæð í um 20 mínútur. Þá tók hún að lækka flugið, hefur CNN eftir heimildarmönnum sínum. 

En hvar er hún núna? Þessi spurning brennur enn á öllum, sex vikum eftir að vélin hvarf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert