Hátt verð á matvælum gerir það að verkum að þriðjungur Breta á í erfiðleikum með að neyta hollrar fæðu.
Þetta eru niðurstöður könnunar bresku hjartaverndarinnar, The British Heart Foundation (BHF), sem varar við afleiðingum þessa á heilsufar, að því er fram kemur á vefsetri BBC.
Í könnuninni kom í ljós, að 39% fullorðinna fórnuðu hollustunni til að versla ódýrar í matvælabúðum. Fjórðungur sagðist ekki hafa keypt einn einasta ferskan ávöxt eða grænmeti vikuna fyrir könnunina.
Tveir þriðju sögðust vilja neyta hollari fæðu en helmingur þeirra sögðu dýrtíðina hamla því.
Hjartasamtökin segja að fólk geti eftir sem áður neytt hollrar fæðu þó auraráð séu lítil. Þau hafa áhyggjur af því að fólk kaupi fremur ódýra tilbúna rétti. Í könnuninni sögðust margir svarenda kaupa tilbúna rétti jafnvel þótt þeir vissu að í þeim gæti verið að finna fullmikið af mettaðri fitu og salti.
BHF mælir með því að fólk brúki ódýrar aðferðir til að búa sér til hollan mat. Svo sem með því að kaupa niðursoðna eða frosna ávexti og grænmeti sem se ódýrari valkostur en sömu vörur ferskar. Sömuleiðis væri yfirleitt svo að grænmeti kostaði minna en kjöt og því væri ráð fyrir fólk að auka hlut grænmetis í mat á kostnað kjöts.