Segolene Royal, umhverfisráðherra og fyrrverandi kona Francois Hollande Frakklandsforseta, hefur birt starfsmönnum ráðuneytisins nýjar umgengnisreglur sem dregið hefur verið dár að henni fyrir og hátterni hennar líkt við framferði kónga.
Staðhæft er að í reglunum sé að finna bann við því að konur beri brjóst sín að hluta í ráðuneytinu með því að klæðast bolum og blússum með síðu v-hálsmáli. Bannið er sagt í þágu aukins velsæmis. Þá kveða reglurnar á um að starfsfólkið skuli ávallt rísa úr sætum er Royal fer hjá.
Reyndar hefur Royal vísað því á bug að hún hafi bannað klæðaburð þennan er hún tók við ráðherrastarfi í byrjun apríl, en engar athugasemdir gert við fréttir af öðrum umgengnisreglum hennar.
Til þess að starfsmenn gleymi því ekki að standa upp fyrir Royal hefur hún ákveðið að á undan sér fari ætíð kjólklæddur ráðuneytisvörður er tilkynni hver sé þar á ferð.
Ekki má raska matarró ráðherrans
Royal hefur einnig bannað reykingar á lóð ráðuneytisins í hennar viðurvist. Og þegar hún matast í einkamatsal hennar er starfsfólki og aðstoðarfólki bannað að ganga um nærliggjandi ganga svo „hávaði“ trufli hana ekki. Það þýðir að enginn kemst í mötuneytið þegar Royal hefur gengið þar inn.
Loks hefur öllu starfsfólki ráðuneytisins verið tjáð, að það verði að deila skrifstofu með að minnska kosti einum öðrum. Aðeins ein einkaskrifstofa skuli vera í ráðuneytinu, skrifstofa frú Royal.
Segolene Royal er dóttir herforingja sem bjó henni strangt uppeldi. Hefur hún sjálf fyrir margt löngu fengið orð á sig fyrir einræðistilburði.