Á baki þjóðrembudýrinu

Vladímír Pútín
Vladímír Pútín AFP

Fyrir hundrað árum hikuðu leiðtogar bæði stórra og lítilla ríkja ekki við að virkja tryllt þjóðernisofstæki til að fylkja þjóðinni að baki sér á örlagastundu. En nú hefur Vladímír Pútín Rússlandsforseti vakið upp gamla drauginn og segir að Rússlandi beri skylda til að verja allt rússneskumælandi fólk ef það sæti ofsóknum eða misrétti. Hvar sem það býr.

Er nóg að hundrað manna hópur rússneskumælandi manna í grannríki segist vera ofsóttur, á Rússland þá rétt á að gera innrás til að koma á „lögum og reglu“? Sé það svo þurfa mörg ríki að gæta sín. Rússneskumælandi minnihlutahópar eru margir, bæði í austanverðri Evrópu og nokkrum Mið-Asíulöndum.

Þegar sterkir leiðtogar, eins og Pútín vill gjarna að þjóðin álíti hann vera, hefja fífldjarft ferðalag á baki þjóðrembutígursins og nota stór orð er oft erfitt að stíga af baki. Ef hann neyðist til að hopa, jafnvel múlbinda villidýrið, er hetjuímyndin orðin að engu. Afturkastið gæti orðið afdrifaríkt, reiðin gæti beinst að honum sjálfum og tígurinn gert uppreisn, heimtað annan og hraustari knapa.

Svonefnt alþjóðakerfi síðustu áratuga hefur byggst að miklu leyti, a.m.k. í Evrópu, á því að eitt ríki leggi ekki undir sig landsvæði í öðru með hervaldi. Fyrst í stað neitaði Pútín að viðurkenna að rússneskir hermenn hefðu verið notaðir til að taka öll völd á Krím, seinna gekkst hann við því. Og ljóst er af frásögnum margra heimildarmanna að atkvæðagreiðslan á Krím, fyrst á þingi og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla, fór ekki fram í samræmi við neinar lýðræðisreglur. Um var að ræða blekkingaleik þótt vafalaust hafi meirihluti rússneskumælandi íbúa á svæðinu viljað fara „aftur heim“.

Nú róa Rússar leynt og ljóst undir átökum í austurhluta Úkraínu þar sem hluti rússneskumælandi fólks vill annaðhvort mikil tengsl við Rússland eða jafnvel að svæðið verði innlimað. Rússar hafa tugþúsundir hermanna rétt handan við landmærin, varla dregur það úr sigurvissu aðskilnaðarsinna. Heræfingabröltið eykur enn ótta annarra Úkraínumanna, þ.ám. ráðamanna í Kænugarði, um að beðið sé eftir heppilegu tækifæri til að gera innrás.

Og síðan eru rússneskir fjölmiðlar notaðir til að heilaþvo almenning með hræðslu- og hatursáróðri um hræðilega glæpi úkraínskra fasista gegn saklausum borgurum sem eiga sér rússnesku að móðurmáli. Skoðanakannanir, sem reyndar eru mjög ótraustar, benda samt til þess að fáir rússneskumælandi Úkraínumenn taki undir hatursáróðurinn frá Moskvu.

Munu þeir „kjósa rétt?“

En friðsamir borgarar reyna yfirleitt að láta lítið fyrir sér fara í andrúmslofti eins og nú ríkir á svæðinu. Pútín treystir hins vegar ekki að þeir muni „kjósa rétt“. Nú þegar hafa Rússar gefið sterklega í skyn að þeir muni ekki taka neitt mark á niðurstöðum forseta- og þingkosninga sem eiga að fara fram 25. maí.

Vafalaust var Pútín brugðið þegar Viktor Janúkóvítsj var steypt af stóli í Kænugarði. Draumur Pútíns um að Úkraína yrði smám saman aftur rússneskt áhrifasvæði virtist á enda. En ef hann dregur ekki í land núna getur farið svo að Vesturlönd leggi sig fram um að minnka viðskiptatengslin við þetta ótrausta einræðisríki. Nú þegar hafa erlendar fjárfestingar í Rússlandi snarminnkað. Menn treysta ekki dómskerfinu sem oftast fer að fyrirmælum ráðamanna.

Fyrsta áratug Pútíns við stjórnvölinn gekk honum flest í haginn. Hagvöxtur var mikill og stöðugur, olíuverð var hátt. En á síðari árum hefur borið á öflugu andófi gegn forsetanum vegna spillingar og einræðistilburða. Og efnahagurinn hefur staðnað, sáralítið er um nýsköpun, neytendur hunsa innlenda framleiðslu sem oft er léleg og dýr. Verðbólga er vaxandi og fátt um jákvæð teikn, verðfall hefur orðið á verðbréfamörkuðum í Moskvu. Ungir Rússar yfirgefa landið í stríðum straumum, sjá ekki neina framtíðarmöguleika. Í tíð Pútíns hafa innviðir verið látnir reka á reiðanum, en um leið var varið 50 milljörðum dollara í Ólympíuleikana í Sotsjí. Nú þarf Moskvustjórnin auk þess að verja miklu fé til að aðstoða íbúa Krímskaga.

Brestirnir í efnahagnum voru þegar komnir í ljós í fyrra, það viðurkenndu ráðherrar opinberlega og lýstu áhyggjum sínum. Herská utanríkisstefna Pútíns hefur tímabundið aukið mjög vinsældir hans heima fyrir. En hún gæti að hluta verið merki um örvæntingu manna sem horfa fram á efnahagshrun og þurfa að beina athyglinni að einhverju öðru.

Vaxandi verðbólga, minnkandi hagvöxtur og fjármagnsflóttinn það sem af er árinu nemur um 70 milljörðum dollara. Tölurnar eru ískyggilegar. 140 milljón manna þjóð býr í þessu risastóra landi en landsframleiðsla Rússa er samt ekki meiri en á Ítalíu þar sem búa um 60 milljónir. Gengi rúblunnar hefur fallið hratt, seðlabankinn í Moskvu reyndi í gær að verja gengið, hækkaði vexti úr 7 í 7,5%. En sama dag gaf matsfyrirtækið Standard&Poor's Rússlandi einkunnina BBB- sem er einu stigi yfir ruslflokki.
Vladímír Pútín
Vladímír Pútín AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert