Gripið til frekari refsiaðgerða

Aðskilnaðarsinnar í úkraínska bænum Konstantinovka.
Aðskilnaðarsinnar í úkraínska bænum Konstantinovka. AFP

Evrópusambandið samþykkti í dag refsiaðgerðir gegn fimmtán ráðamönnum í Rússlandi og Úkraínu vegna þeirrar stöðu sem er komin upp í ríkjunum. Heimildir AFP herma að sambandið hafi nú kyrrsett eignir ráðamannanna og sett þá jafnframt í farbann.

Heimildarmennirnir segja að embættismenn í Brussel telji þetta vera einu raunhæfa leiðina til að fá Rússa til að láta af aðgerðum sínum í Úkraínu.

Refsilistinn yfir viðkomandi einstaklinga verður líklegast gerður opinber á morgun, þriðjudag, að því er segir í frétt AFP.

Þar segir jafnframt að ákvörðunin hafi verið tekin á sameiginlegum fundi sendiherra allra 28 ríkja Evrópusambandsins í dag.

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í dag einnig um refsiaðgerðir, en aðgerðir þeirra beinast gegn sjö rússneskum embættismönnum og sautján fyrirtækjum sem tengjast öll valdahring Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu sagði að gripið hefði verið til aðgerðanna til að refsa Rússum fyrir „ögrandi aðgerðir“ sínar í Úkraínu.

Í nokkrum bæjum í austurhluta landsins hafa aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum lagt undir sig ýmsar opinberar byggingar. Þeir hafa neitað að yfirgefa byggingarnar, þrátt fyrir að þeim hafi verið gert að gera það samkvæmt samkomulagi sem Bandaríkjamenn, Evrópusambandið, Úkraínumenn og Rússar skrifuðu undir í Genf á skírdag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert