Þrír menn sem létust í mótmælunum í Egyptalandi voru á meðal þeirra 683 liðsmanna Bræðralags múslíma sem dæmdir voru til dauða í dag.
Réttarhöldin vörðu einungis í tíu mínútur að sögn Khaled Elkomy, verjanda í málinu. Enginn var færður fyrir dómara til þess að gefa skýrslu. Verjandinn lýsir réttarhöldunum sem dómstóla-farsa þar sem staðreyndir málsins hefðu ekki einu sinni verið skoðaðar.
Þá var bent á að einn af þeim ákærðu hefði ekki tekið þátt í mótmælunum heldur hafi hann einungis verið á lista yfir sakborninga þar sem hann neitaði að greiða lögreglumanni peninga.
Einungis 73 af þeim sem hlutu dauðadóm eru í haldi lögreglu. Að sögn saksóknara eiga þeir sem gefa sig fram við lögreglu rétt á nýjum réttarhöldum.
Mikil sorg ríkti þegar dómurinn var kveðinn upp fyrir utan dómshúsið þar sem ættingjar margra þeirra er dæmdir voru til dauða féllu í yfirlið.
Þeir sem dæmdir voru til dauða í dag voru flestir ákærðir fyrir aðild að morði og morðtilraun á lögreglumönnum í Minya héraði þann 14. ágúst í fyrra þegar lögregla drap hundruð stuðningsmanna Morsis í átökum í Kaíró.