Fangi sem taka átti af lífi í Oklahoma í gærkvöldi lést úr hjartaáfalli eftir að aftökunni var frestað tímabundið þegar lyfjablandan sem nota átti við aftökuna virkaði ekki sem skyldi. Fanginn var úrskurðaður látinn rúmum fjörutíu mínútum eftir að aftakan hófst.
Bláæð í Clayton Lockett, 38 ára, gaf sig og kom í veg fyrir að kokteill þriggja lyfja sem átti að taka hann af lífi með næði fullri virkni. Því var aftökunni frestað um 20 mínútur enda engdist Lockett til og frá og skalf stöðugt, samkvæmt frétt BBC.
Taka átti annan fanga af lífi á dauðadeild í Oklahoma, Charles Warner, tveimur tímum síðar en aftökunni var frestað um tvær vikur.
Talsmaður refsideildar Oklahoma segir í samtali við bandaríska fjölmiðla að Lockett hafi látist úr hjartaáfalli eftir að hafa fengið banvæna sprautu með þriggja lyfja kokteil.
„Við töldum að æð hefði gefið sig og að lyfin virkuðu ekki sem skyldi. Aftökustjórinn fyrirskipaði að aftökunni yrði frestað, segir Jerry Massie, talsmaður refsideildar Oklahoma. Yfirmenn fangelsins settu tjöld fyrir svo áhorfendur gætu ekki fylgst með þegar ljóst var að eitthvað hafði farið úrskeiðis við aftökuna.
„Hann var með fullri meðvitund og blikkaði, sleikti varir sínar jafnvel eftir að aftakan hófst. Síðan byrjaði hann að hristast, tísti fréttamaður Associated Press, Bailey Elise McBride, frá aftökunni.
„Þetta var handvömm og það var erfitt að horfa upp á þetta,“ segir David Autry, einn lögmanna Locketts.
Ríkisstjóri Oklahoma, Mary Fallin, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hún hafi fyrirskipað rannsókn á framkvæmd aftökunnar.
Lockett var dæmdur til dauða fyrir að hafa skotið nítján ára gamla konu árið 1999. Warner var dæmdur fyrir nauðgun og morð á ellefu mánaða gamalli stúlku árið 1997.
Samkvæmt frétt LA Times er þetta fyrsta aftakan frá því yfirvöld í Oklahoma ákváðu að gera breytingu á lyfjagjöf við aftökur. Í stað tveggja lyfja voru notuð þrjú lyf við aftökuna, midazolam, sem veldur meðvitundarleysi, vecuronium bromide, sem stöðvar öndun, og potassium chloride, sem stöðvar hjartað. Lyfin eru gefin í þessari röð.
Samkvæmt frétt LA Times hristist Lockett til og frá og skalf við aftökuna og reyndi ítrekað að lyfta höfðinu. Telur blaðið að aftakan og framkvæmd hennar komi til með að valda miklu fjaðrafoki og umræðu um hvort afnema eigi dauðarefsingar.
Þetta klúður við aftökuna mun hafa gríðarleg áhrif, segir Deborah W. Denno, prófessor við Fordham-lagaháskólann og sérfræðingur í dauðarefsingum, í viðtali við Los Angeles Times. „Allur heimurinn fylgdist með þessari aftöku.“
Síðustu augnablik Warners Locketts