Ann Hunt, 78 ára, hafði ekki hugmynd um að hún ætti tvíburasystur fyrr en á síðasta ári. Nú hefur hún sitt tvíburasystur sína, Elizabeth Hamel, í fyrsta skipti. Er þetta lengsti aðskilnaður tvíbura sem vitað er um.
Elizabeth sat heima á heimili sínu í Albany í Oregon í Bandaríkjunum og fletti í gegnum póstinn sinn þegar hún rakst á bréf frá Aldershot í Bretlandi, fæðingarbæ hennar. „Ég skrifa þér þar sem ég er að leita að fjölskyldutengslum,“ sagði í bréfinu. Elizabeth segist hafa vitað um hvað bréfið snerist og örfáum mínútum síðar hringdi hún til Bretlands.
Á hinni línunni var Ann, tvíburasystir hennar. „Ég lét Elizabeth aðallega um að tala, ég þurfti að klípa sjálfa mig vegna þess að ég áttaði mig á því að ég á systkini, systur. Þetta er svo dásamlegt, ég er ekki ein lengur. Ég á ekki orð, ég er svo hamingjusöm, ég á Elizabeth.“
Ólíkt Ann vissi Elizabeth að hún ætti systur. „Ég hef beðið fyrir þér í mörg ár,“ sagði hún við Ann í fyrsta skipti sem þau ræddu saman. Elizabeth hefði reynt að hafa upp á Ann síðustu ár, en án árangurs. „Ég hugsaði, hún var ættleidd, hún gæti verið hvar sem er í heiminum,“ segir Elizabeth. Í ljós kom að systir hennar var inn í Aldershot í Bretlandi.
Í gær, ári eftir að systurnar ræddu fyrst saman og 78 árum eftir aðskilnað þeirra, hittust þær aftur í Fullerton, nærri Los Angeles. Þar ætla Nancy Segel, doktor í sálfræði, að ræða við þær en hún hefur rannsakað tvíbura sem hafa verið aðskildir, síðastliðin 20 ár.
Þegar stúlkurnar fæddust fengu þær nöfnin Elizabeth Ann Lamb og Patricia Susan Lamb. Þær fæddust 28. febrúar 1935 í Aldershot í Bretlandi. Móðir þeirra, Alice Alexandra Patience Lamb var ógift og faðir þeirra var hermaður. Hann sá aftur á móti aldrei dætur sínar.
Ann var fjórtán ára þegar hún komst að því að hún var ættleidd. Þegar móðir hennar lést árið 2001, sú sem ættleiddi hana, fór hún loksins til að fá afrit af fæðingarvottorði sínu. Þar fann hún nafn líffræðilegrar móður sinnar, Alice Lamb. Þar var ekki minnst á að hún hefði átt tvíburasystur.