42 létust er eldur var kveiktur í borginni Odessa í suðurhluta Úkraínu í gær. Ofbeldisalda gengur nú yfir landið. Á tveimur dögum hafa meira en 50 manns fallið í átökum víðs vegar um landið. Dagurinn í dag er sá blóðugasti frá því að bráðabirgðastjórn landsins tók við. Flestir létust í eldinum í Odessa. Þar höfðu mikil átök brotist út á götunum og heimatilbúnum bensínsprengjum kastað.
Í dag hafa stjórnarhermenn og hermenn aðskilnaðarsinna barist af hörku.
Stjórnvöld í Rússlandi segja „fráleitt“ að ætla að halda forsetakosningar í Úkraínu þann 25. maí. Rússar hafa þegar tekið völdin á Krímskaga eftir að íbúar þar samþykktu slíkt í atkvæðagreiðslu.
Íbúar hafnarborginnar Odessa eru reiðir. Þeir eru einnig fullir sorgar vegna þeirra sem létu lífið í eldinum. Blóm, kerti og myndir má sjá mörgum stöðum í borginni. Þar er þeirra minnst sem féllu. Mörg þúsund manns komu saman fyrir utan bygginguna þar sem fólkið varð innlyksa og eldinum að bráð. Eldurinn kviknaði í átökum stjórnarhersins og hermanna aðskilnaðarsinna. Ekki er enn nákvæmlega vitað hvað gerðist en bensínsprengjum var kastað í átökunum og talið er að þær hafi orðið til þess að kveikja í byggingunni.