Lögleiða maríjúana í Úrúgvæ

AFP

Stjórnvöld í Úrúgvæ hafa nú kynnt með hvaða hætti maríjúana verður framleitt og selt á löglegan hátt í landinu.

Samkvæmt frumvarpi sem liggur fyrir á úrúgvæska þinginu verður löggiltum lyfsölum leyft að selja efnið og má hver og einn neytandi kaupa allt að fjörutíu grömm á mánuði. Búist er við því að salan hefjist á þessu ári, líklegast í nóvember eða desember.

Í frétt breska ríkisútvarpsins um málið segir að Úrúgvæ hafi í fyrra orðið fyrsta landið í heiminum til að leyfa ræktun, sölu og neyslu maríjúana. Talið er að lögin komi til framkvæmda á næstu dögum.

Samkvæmt frumvarpinu verður hverju heimili heimilt að að rækta allt að sex kannabisplöntur og verður neyslan á efninu leyfileg á sömu stöðum og tóbaksreykingar eru nú leyfðar í landinu.

Háttsettur embættismaður sagði við fjölmiðla í gær að eitt gramm af maríjúana myndi líklegast kosta á bilinu 20 til 22 pesó, eða um 170 krónur. Er jafnframt gert ráð fyrir því að eftirspurnin verði allt að 18 til 22 tonnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert