Francois Hollande, forseti Frakklands, segir að áframhaldandi efnahagsbati í landinu muni skapa svigrúm til skattalækkana í náinni framtíð.
Hann telur þó að batinn sé sem stendur ekki nægilega sterkur, heldur enn of brothættur. En með áformum ríkisstjórnar hans í efnahagsmálum muni hagvöxtur loks fara að taka við sér og atvinnuleysi minnka.
Þetta sagði hann í samtali við franska fjölmiðla í dag.
Ummæli forsetans hafa vakið þónokkra athygli enda hefur hann hingað til verið þekktur fyrir sósíalískar skoðanir sínar. Hafði hann til dæmis stór áform um að hækka verulega skatta á franska auðmenn, að því er segir í frétt Reuters.
Í maímánuði árið 2012 var Hollande kjörinn forseti Frakklands til fimm ára. Hann segir að þegar honum tekst loks að koma böndum á ríkisfjármálin, þá sé mögulegt að huga að því að lækka skatta á franskan almenning.