Stúlkuránið glæpur gegn mannkyninu

AFP

Sala á skólastúlkum sem var rænt í Nígeríu fyrir 22 dögum er mögulega glæpur gegn mannkyninu, segir Navi Pillay, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum.

Alls var 276 skólastúlkum rænt í bænum Chibok í Borno í norðurhluta landsins. Um 50 þeirra tókst að flýja en enn eru 223 í haldi mannræningjanna. Boko Haram, samtök íslamskra hryðjuverkamanna í Nígeríu, hafa viðurkennt að hafa rænt hundruðum skólastúlkna í apríl. „Ég rændi stúlkunum ykkar,“ segir leiðtogi Boko Haram, Abubakar Shekau, í myndskeiði sem birt var í gær. Sagði hann að stúlkurnar yrðu seldar á uppboði en þær eru bæði úr röðum kristinna og múslíma. 

Pillay segir að ummæli leiðtoga Boko Haram veki þungar áhyggjur enda þýði þetta að samtökin ætli sér að selja stúlkurnar í ánauð.

Rupert Colville, talsmaður mannréttindastjóra SÞ, Navi Pillay, segir að SÞ fordæmi brottnám stúlknanna og að glæpamennirnir verði að gera sér grein fyrir því að um brot á alþjóðlegu banni gegn þrælahaldi og kynlífsþrælkun sé að ræða. Þetta geti jafnvel fallið undir glæpi gegn mannkyninu.

„Það þarf að skila þessum stúlkum strax, heilum á húfi, til fjölskyldna sinna,“ segir Colville.

Mikil reiði og örvænting ríkir í Nígeríu vegna málsins, ekki síst vegna aðgerðarleysis stjórnvalda. 

Pillay hefur ritað forseta Nígeríu, Goodluck Jonathan, bréf þar sem hún hvetur ríkisstjórn hans til þess að leggja allt í sölurnar svo stúlkunum verði skilað heilum á húfi. Eins að bæta öryggi barna í landinu. 

Naomi Mutah, áhrifakona frá Chibok, sem tók þátt í að skipuleggja mótmælagöngur í höfuðborginni Abuja í síðustu viku var í gær handtekin. Er fullyrt að það hafi verið gert að kröfu forsetafrúarinnar, Patience Jonathan. Er hún sögð hafa sakað aðgerðasinna um að hafa sviðsett mannránið til að sverta ríkisstjórnina.

AFP
AFP
AFP
AFP
Navi Pillay
Navi Pillay AFP
Abubakar Shekau
Abubakar Shekau AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert