Svo virðist sem velgengni Íslands hafi komið einhverjum á óvart í gærkvöldi en framlagi Pollapönks, No Prejudice, hafði ekki verið spáð góðum árangri af veðbönkum. Í frétt BBC segir að áhorfendur hafi ekki fagnað með rússnesku tvíburasysturunum þegar Rússland var dregið upp úr umslaginu.
10 þúsund áhorfendur voru í B&W höllinni í Kaupmannahöfn í gærkvöldi þegar fyrra undanúrslitakvöld Eurovision fór fram. Mikil stemning ríkti og virtust flestir skemmta sér vel. Íslensku Pollapönkurunum var til að mynda fagnað gríðarlega eftir að þeir höfðu lokið flutningi sínum.
Tolmachevy systur fluttu framlag Rússlands, Shine. Þær fengu sinn skerf af fagnaðarlátum þegar þær höfðu fluttu lagið en uppskáru aftur á móti baul áhorfenda þegar í ljós kom að þær hefðu komist í úrslit. Létu áhorfendur í ljós vanþóknun sína með látum.
Fyrir keppnina höfðu margir veðja á velgengni Armeníu, Svíþjóðar, Úkraínu, Ungverjalands og Aserbaídsjan og höfðu því margir rétt fyrir sér. Í The Irish Times kemur fram að mörgum hafi komið á óvart að San Marínó rataði í úrslitin. Þetta er í þriðja skipti í röð sem Valentina Monetta flytur framlag landsins.
„Aðrir sem komu á óvart voru Svartfjallaland, með ballöðuna Moj Svijet og Ísland, með framlag um umburðarlyndi, No Prejudice,“ segir í fréttinni.