Neyddi bankaskuldir upp á Íra

AFP

Evrópusambandið þröngvaði Írum til þess að á herðar sínar skuldir írskra banka sem varð til þess að þarlend stjórnvöld neyddust til þess að óska eftir neyðaraðstoð frá sambandinu. Þetta sagði Phillipe Legrain, fyrrverandi efnahagsráðgjafi Josés Manuels Barroso forseta framkvæmdastjórnar ESB, í samtali við írsku sjónvarpsstöðina RTE í gær.

„Það voru mistök af hálfu fyrri ríkisstjórnar [Írlands] að ábyrgjast allar skuldir írskra banka en það var fyrir neðan allar hellur að hóta því í raun að neyða Írland út af evrusvæðinu ef ríkisstjórnin stæði ekki við þetta heimskulega loforð,“ sagði Legrain samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com. Hann sagði ábyrgðina í þessum efnum liggja hjá framkvæmdastjórn ESB, Evrópska seðlabankanum og þýskum stjórnvöldum.

Þannig hafi ástæða þýskra stjórnvalda að hans mati verið sú að írsku bankarnir skulduðu þýskum bönkum mikla fjármuni. Framkvæmdastjórnin hafi lagt áherslu á að fylgja Þjóðverjum að máli og Jean-Claude Trichet, þáverandi seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans, hafi að sama skapi viljað vernda hagsmuni franskra banka. Þannig hafi stofnanir ESB í raun „sett hagsmuni þessara banka ofar hagsmunum írsks almennings.“

Legrain sagði að írsk stjórnvöld hefðu getað spyrnt við fótum vegna harkalegra krafna Evrópusambandsins í ljósi þess að það hefði getað grafið undan evrusvæðinu ef Írum hefði verið vísað út af því. En þau hafi hins vegar ekki gert það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert