Hafa lítinn áhuga á kosningunum

Evrópuþingið.
Evrópuþingið. AFP

Sex af hverjum tíu kjósendum í ríkjum Evrópusambandsins hafa lítinn áhuga á kosningunum til Evrópuþingsins sem fram fara síðar í þessum mánuði þrátt fyrir að mikil áhersla hafi verið lögð á að auka áhuga á þeim. Þetta kemur fram í frétt Reuters og vísað í niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar breska fyrirtækisins Ipsos-MORI sem birtar voru í gær.

Fram kemur í fréttinni að 62% aðspurðra hafi annaðhvort lýst engum áhuga eða litlum áhuga á kosningunum til Evrópuþingsins sem fram fara dagana 22.-25. maí næstkomandi. Þar verða bæði kosnir þingmenn á Evrópuþingið og nýr forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins næstu fimm árin. Einungis 35% sögðust ákveðin í að taka þátt í kosningunum en þátttakan fyrir fimm árum var aðeins 43% og hefur minnkað stöðugt frá fyrstu kosningunum árið 1979.

Mestur áhugi á kosningunum reyndist í Belgíu eða 53% en kjósendum ber skylda til þess að mæta á kjörstað þar í landi. Næst kom Frakkland með 44% og Holland með 41%. Minnstur áhugi var í Póllandi, 20%, og næstminnstur í Bretlandi, 27%. Þá sögðust 60% aðspurðra ekki kunna skil á þeim einstaklingum sem boðið hafa sig fram til embættis forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Skoðanakönnunin var gerð í apríl og náði til 8.833 einstaklinga í Belgíu, Bretlandi, Króatíu, Frakklands, Þýskalands, Ungverjalands, Írlands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Spánar og Svíþjóðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert