Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, var viðstaddur árlega skrúðgöngu rússneska hersins á Rauðatorginu í Moskvu í dag þar sem sigrinum á nasistum í seinni heimstyrjöldinni var fagnað.
Hann hrósaði styrk þjóðarinnar og föðurlandsást hennar. Það hversu trúir Rússar föðurlandi sínu og hversu mikilvægt það er.
Á sama tíma ríkir óvissa í nágrannaríkinu Úkraínu þar sem margir bæir eru í höndum aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum.
Samkvæmt frétt á vef BBC er uppi orðrómur um að Pútín ætli sér að vera viðstaddur hersýningu í Sevastopol í Krím síðar í dag. Það hefur hins vegar ekki verið staðfest.
Aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu sögðust í gær myndu halda fyrirætlunum sínum um atkvæðagreiðslu um aðskilnað til streitu, þrátt fyrir að Rússlandsforseti hefði biðlað til þeirra á miðvikudag um að fresta henni til að skapa svigrúm fyrir viðræður um pólitíska framtíð landsins, m.a. um meira sjálfræði til handa héruðum þar sem stór hluti íbúa samsamar sig rússneskri menningu. „Atkvæðagreiðslan mun fara fram 11. maí,“ sagði Miroslav Rudenko, einn ráðamanna Donetsk People's Republic, í samtali við rússnesku fréttaveituna Interfax.