Aðskilnaðarsinnar í héraðinu Donetsk í Úkraínu fullyrða að 89% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins hafi lýst stuðningi við sjálfstæði. Þeir segja að aðeins 10% hafi verið á móti. Kosningarnar eru umdeildar og hafa stjórnvöld í Kænugarði sagt að þær séu ólöglegar.
„Það má líta á þetta sem endanlega niðurstöðu,“ sagði Roman Lyagin, yfirmaður sjálfskipaðrar kjörstjórnar í Donetsk, skömmu eftir að kjörstöðum var lokað í dag.
Hann segir að kosningaþátttaka hafi verið um 75%.
„Við sögðum frá niðurstöðunum um leið og við höfðum fengið þær í hendur,“ bætti Lyagin við.
„Það reyndist einstaklega auðvelt að telja atkvæðin þar sem þeir sem voru á móti voru afskaplega fáir og afar fáir kjörseðlar voru ógildir.“
Doneskt er annað tveggja héraða í austurhluta Úkraínu sem héldu atkvæðagreiðslu í dag um sjálfstæði héraðanna. Úkraínsk stjórnvöld segja að kosningin sé ekkert annað en farsi og Vesturveldin óttast að þetta verði til þess að Úkraína sé einu skrefi frá því að borgarastríð brjótist út í landinu.
Ekki hafa borist fregnir frá atkvæðagreiðslunni í Lugansk-héraði, en þar var kjörstöðum lokað aðeins seinna.