Mikil gæsla er í kringum pakistanska lækninn Shakeel Afridi sem situr í fangelsi í Pakistan enda eru margir sem vilja koma honum fyrir kattarnef. Þrjú ár eru síðan Osama Bin Laden var tekinn af lífi, en Afridi aðstoðaði bandarísku leyniþjónustuna við að finna Bin Laden.
Um 200 lögreglumenn og hermenn gæta fangelsisins þar sem Afridi dvelur. Margir Pakistanar líta á hann sem svikara og vilja drepa hann. Al-Qaeda hefur oftar en einu sinni gert árásir á fangelsi í Pakistan og frelsað liðsmenn sína. Óttast er að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna reyni að ráðast á fangelsið og drepa Afridi.
Lækirinn Shakil Afridi sagði í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina árið 2012 að hann liti ekki svo á að hann hefði þurft að flýja eftir drápið á Bin Laden. Sér hefði í kjölfarið verið rænt af leyniþjónustunni. Hann segist hafa þurft að sæta pyntingum er hann var í haldi ISI.
Afridi er í heimalandi sínu sakaður um að hafa tekið DNA-sýni af fjölskyldu Bins Ladens undir fölskum forsendum. Í maí 2011 var hann dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir að fjármagna og styðja skæruliðasamtök en fréttaritarar á svæðinu telja að Pakistanar og stuðningsmenn Bins Ladens séu að refsa honum fyrir að hafa hjálpað bandarísku leyniþjónustunni, CIA, að hafa hendur í hári Al-Qaeda-leiðtogans.