70% Norðmanna vilja ekki í ESB

Norden.org

Mikill meirihluti Norðmanna er andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var fyrir norsku dagblöðin Nationen og Klassekampen. Samtals vilja 70% ekki ganga í sambandið en 20% eru því hlynnt.

Meirihluti er gegn inngöngu í Evrópusambandið á meðal kjósenda allra norsku stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á þingi samkvæmt frétt Nationen. Minnst er andstaðan á meðal kjósenda Hægriflokksins eða 58,4% en rúmur þriðjungur þeirra styður inngöngu. Mest er andstaðan hjá kjósendum Miðflokksins eða 93% en 4% styðja inngöngu. 63,6% kjósenda Framfaraflokksins, sem myndar núverandi ríkisstjórn Noregs með Hægriflokknum, eru á móti inngöngu en 22,5% hlynnt.

Haft er eftir Nikolai Fjågesund, formanni ungliðahreyfingar norskra Evrópusambandssinna, að koma þurfi umræðunni um Evrópusambandið aftur í gang. Á meðan hlutirnir séu að fara í gang á nýjan leik innan sambandsins sé stöðnun í Noregi. Heming Olaussen, leiðtogi samtakanna Nei til EU sem berjast gegn inngöngu í Evrópusambandið, segir andstöðuna við inngöngu gríðarlega stöðuga. Möguleikinn á inngöngu Noregs í sambandið sé í raun ekki raunhæfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka