Farþegaþota Air France, frá Rio de Janeiro til Parísar, hrapaði ávegna þess að flugmennirnir voru stressaðir og brugðust ekki rétt við. Þetta segir ný skýrsla sérfræðinga.
228 manns voru um borð í farþegaflugvél Air France af gerðinni Airbus A330, sem hvarf af ratsjám 1. júní 2009. Flugritarnir, svörtu kassarnir, fundust með hjálp neðansjávarvélmenna eftir ítarlega leit sem stóð í tvö ár og kostaði milljónir evra.
Nýja skýrslan var unnin af fimm óháðum sérfræðingum að beiðni rannsakenda og hefur Afp-fréttastofan eintak af henni undir höndum. Í henni segir að viðbrögð áhafnar, eftir að hraðamælar vélarinnar biluðu, hafi ekki verið með réttum hætti.
Niðurstaðan er því sú að það hafi fyrst og fremst verið mannleg mistök sem ollu slysinu. „Hægt hefði verið að koma í veg fyrir slysið hefði áhöfnin brugðist rétt við,“ segja sérfræðingarnir.
Þetta stangast að nokkru leyti á við skýrslu sem kom út árið 2012 á vegum frönsku flugslysarannsóknarnefndarinnar BEA, því niðurstaða hennar var að slysið mætti rekja til samblands af tæknilegum göllum og mannlegum mistökum.
Í sérfræðingaskýrslunni sem nú er komin fram er flugfélagið Air France sagt ábyrgt að hluta, þar sem flugmennirnir hafi ekki hlotið nægjanlega þjálfun í að bregðast við óvenjulegum kringumstæðum líkt og komu upp þegar hraðamælarnir biluðu.
„Verkaskiptingu í flugstjórnarklefanum var ekki fylgt af nákvæmni,“ segir í skýrslunni. Afp hefur eftir Yassine Bouzrou, lögmanni fjölskyldna fórnarlambanna, að nýja skýrslan sé full af mótsögnum.
„Sérfræðingarnir eru bara ánægðir með að kenna flugmönnunum um, en forðast lykilatriði sem varða tæknibilanir,“ segir Bouzrou.
Sjá einnig: Bæði mannlegar og tæknilegar orsakir