Helmingur hlynntur evrunni

AFP

Helmingur íbúa ríkja Evrópusambandsins er hlynntur evrunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar á vegum sambandsins. Hins vegar eru 43% andvíg henni.

Mest andstaða er við evruna í Bretlandi eða 74% á móti 20% sem eru hlynnt henni en Bretar eru ekki með evruna sem gjaldmiðil sinn. Sömu sögu er að segja frá Danmörku, Svíþjóð og Póllandi þar sem 65% eru andvíg evrunni. Þriðjungur Dana og Svía er henni hins vegar hlynntur og 27% Pólverja. Eins er meirihluti Tékka á móti evrunni samkvæmt könnuninni eða 71% en 25% eru henni hlynnt.

Sama er að segja um Litháa en 56% þeirra eru andvíg evrunni en 34% hlynnt. Helmingur Portúgala er andvígur evrunni en 44% hlynnt henni. 46% Ítala styðja ekki evruna en það gera 41% þeirra. Þá eru 48% Kýpverja á móti evrunni en 47% henni hlynnt og jafnmargir Búlgarar eru með og á móti eða 41%.

Fleiri eru hins vegar hlynntir evrunni en á móti henni í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Mestur er stuðningurinn í Finnlandi þar sem 79% eru hlynnt henni en 19% á móti. Þess má geta að hvorki Bretar, Danir, Svíar, Pólverjar, Tékkar né Litháar hafa tekið evruna upp sem gjaldmiðil sinn og sama á við um Búlgara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert