„Byltingin þarfnast ykkar“

Vopnaðir uppreisnarmenn stóðu vörð þegar sjálfsskipaður ríkisstjóri „Lýðveldisins Donetsk“ kallaði …
Vopnaðir uppreisnarmenn stóðu vörð þegar sjálfsskipaður ríkisstjóri „Lýðveldisins Donetsk“ kallaði eftir liðsauka í dag. AFP

Leiðtogar uppreisnarmanna í Úkraínu biðluðu í dag til almennings að slást í lið með þeim í baráttunni gegn yfirvöldum í Kænugarði, og tóku sérstaklega fram að meira að segja konur væru velkomnar.

„Við höfum unnið mikla sigra og fleiri eru í vændum,“ sagði Denis Pushilin, sjálfskipaður ríkisstjóri „Lýðveldisins Donetsk“ í ræðu sem hann hélt á útifundi í borginni.

Hann sagð byltinguna þurfa fleiri sterka menn til að verja lýðveldið því borgarastríð geisaði. „Fjöldi manna fellur á hverjum degi, svo við þurfum fleiri,“ sagði hann en nefndi þó engar tölur um mannfall. Fréttir af átökum berast hinsvegar á hverju kvöldi af svæðinu.

Sameinuðu þjóðirnar sögðu í skýrslu sem kom út á föstudag að 127 hafi fallið í bardögum í austurhluta Úkraínu síðan aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússlandi gripu til vopna gegn ríkisstjórninni í Kænugarði í apríl.

„Varnarmálaráðherra“ Donetsk, Igor Strelkov, tók undir með Pushilin í myndbandi sem birt var á Youtube, þar sem hann kallaði eftir liðsauka.

„Ef karlar eru ekki viljugir eigum við engan annan kost en að biðla til kvenna um að ganga í okkar raðir,“ sagði hann. „En ég hefði haldið að það væru til að minnsta kosti 1000 menn viljugir til að hætta lífi sínu ekki aðeins í heimabænum, heldur einnig á fremstu víglínu,“ bætti hann við og kvartaði undan því að margir kæmu aðeins til að biðja um vopn til að vernda heimili sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert