Kafaði ofan í myrk skúmaskot

„Það sem vekur oft áhuga minn er eitthvað sem er falið í myrkum skúmaskotum stríðsátaka en fjölmiðar þegja aftur á móti um.“ Þessi ummæli voru höfð eftir Camille Lepage ljósmyndara sem oft starfaði á átakasvæðum. Hún var myrt við störf í Mið-Afr­íku­lýðveld­inu nýverið. Ljósmyndarar og blaðamenn minnast hennar á vefjum fjölmargra fjölmiðla um þessar mundir enda þykja myndir hennar einstakar þrátt fyrir að hún hafi einungis náð 26 ára aldri.

Camille Lepage fæddist 28. janúar 1988 í frönsku borginni Angers. Hú lauk námi í blaðamennsku og sérhæfði sig í fréttaljósmyndun. Að námi loknu starfaði hún fyrst í Evrópu en síðar í Afríku þar sem hún fjallaði til að mynda um uppreisnina í Egyptalandi árið 2011 og í kjölfarið flutti hún sig um set til yngsta lands í heimi - Suður-Súdan, þar sem hún bjó frá árinu 2012, og Mið-Afríkulýðveldinu.

Frásagnir og myndir í öllum helstu fjölmiðlum heims

Hún hafði einungis starfað í nokkra mánuði í Mið-Afríkulýðveldinu þegar hún fannst látin hinn 13. maí sl. Ekki er nema ár síðan hún var spurð að því hvað stæði upp úr hjá henni í starfinu. „Ég er ekki viss um að ég geti talað um starfsferil strax þar sem ég er nýbyrjuð. Mér finnst stórkostlegt að geta ferðast til afskekktra staða, hitt frábært fólk hvar sem ég kem og geta sagt sögu þess,“ sagði Lepage í viðtali við Petapixel.

Þrátt fyrir að eiga stuttan feril að baki hafa myndir hennar og frásagnir birst í fjölmörgum fjölmiðlum. Má þar nefna Guardian, Le Monde, Washington Post, BBC, New York Times, International Herald Tribune, Time, The Sunday Times, Wall Street Journal, LA Times, Al Jazeera, Libération, Le Parisien Magazine, Le Parisien, Le Nouvel Observateur, Jeune Afrique ofl. Eins starfaði hún fyrir samtök eins og Amnesty International og Læknar án landamæra (Médecins sans Frontières)

Gat ekki litið undan og látið sem ekkert væri 

Þegar átökin hófust í Mið-Afríkulýðveldinu í fyrra var Lepage fljót á staðinn og með þeim fyrstu úr hópi fjölmiðlafólks sem fjölluðu um ástandið í landinu sem var á barmi borgarastyrjaldar. Lepage sagðist ekki geta sætt sig við það að þagað væri um þær hörmungar sem fólk þyrfti að þola bara vegna þess að það væri ekki gróðavænlegt. „Ég ákvað því að gera það sjálf og færa þeim eitthvert ljós sama á hverju gengi.“

 Viku fyrir andlát sitt birtist Lapage síðast á Twitter og Instagram þar sem hún sagðist vera á ferðalagi á mótorhjóli með skæruliðum úr hópi anti-blaka, sem eru kristnir uppreisnarhermenn. Þá var hún 120 km frá Berbérati þar sem 150 íbúar hafa verið drepnir af uppreisnarmönnum úr hópi Séléka, bandalags múslímskra uppreisnarmanna, frá því í mars.

Lík Lepage fannst hinn 13. maí. Það voru franskar friðargæslusveitir sem eru við störf í Bouar í vesturhluta Mið-Afríkulýðveldisins, skammt frá landamærum Kamerún, sem fundu það. Í tilkynningu frá frönsku forsetahöllinni kom fram að lík hennar hefði fundist í bifreið skæruliða úr hópi anti-balaka sem franskir hermenn stöðvuðu á milli Bouar og Garoua Boualai.

Veruleiki sem blaðamenn búa við á átakasvæðum

Framkvæmdastjóri Samtaka fréttamanna án landamæra (Reporters sans frontières), Christophe Deloire, segir að dauði Camille Lapage sé mikið áfall enda hafi hún sýnt einstakt hugrekki við störf.

„Við vorum svo heppin að hitta hana á milli verkefna í desember. Hún sagði okkur frá vaxandi spennu í Mið-Afríkulýðveldinu og áhrifum þess á blaðamennsku. Hræðilegur dauðdagi hennar sýnir okkur þá hættu sem blaðamenn, sem reyna að segja fréttir af ástandinu í Mið-Afríkulýðveldinu og á öðrum stríðssvæðum, standa frammi fyrir.“

Eftir að hafa lýst þeim hryllingi sem átti sér stað í bardögum í Nuba-fjöllum í Súdan fór hún til Mið-Afríkulýðveldisins til þess að segja sögur úr daglegu lífi fólks í þessu stríðshrjáða landi sem flestir höfðu gleymt.

Í samtali við James Estrin blaðamanni og ljósmyndara hjá New York Times lýsir hún því þegar hún ákvað að fara til Mið-Afríkulýðveldisins. „Á sama tíma og umheimurinn leit undan ákvað ég að fara þangað í október. Ég var þar í þrjá mánuði og fjallaði um það sem sem var að gerst á þeim tíma sem nú hefur þróast út í algjöra ringulreið,“ segir Camille Lepage.

BBC vísar í starfssystkini Lepage sem segja að henni hafi alltaf tekist að vera í sjálfri hringiðunni og átt í góðu sambandi við stríðandi fylkingar. Á sama tíma og átökin hafa harðnað hefur fjölmiðlafólki sífellt verið gert erfiðara að starfa. Þeim er hótað lífláti og margir þeirra eru flúnir úr landi. Eins hafa innlendir fjölmiðlar hreinlega lagt upp laupana enda árásir gerðar á skrifstofur útvarpsstöðva og dagblaða.

Mið-Afríkulýðveldið féll um 44 sæti á lista yfir Samtaka fréttamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi á milli ára og er fallið meira en hjá nokkru öðru ríki í heiminum. Á síðasta ári létust 75 fréttamenn við störf í landinu og það sem af er ári hafa átján blaðamenn látist við störf í Mið-Afríkulýðveldinu.

Neitaði að samla í yfirborðinu og kafaði dýpra en flestir aðrir

Jerome Delay, sem stýrir ljósmyndadeild AP í Afríku, segir að Lepage hafi alltaf verið einfari í starfi og gert hlutina á sinn hátt. Hann segir að hún hafi minnt hann á Corinne Dufka sem starfar fyrir Mannréttindavaktina (Human Rights Watch) í Afríku og kom meðal annars að rannsókninni á stríðsglæpum í Sierra Leone en hún er menntaður félagsfræðingur. Líkt og Lepage var Dufka fréttaljósmyndari en hún starfaði fyrir Reuters í Mið-Ameríku, Evrópu og Afríku áður en hún hóf störf hjá Mannréttindavaktinni.

Að sögn Delay var Camille Lepage blaðamaður sem lagði óhikað á sig auka ferðalag og meiri tíma til þess að segja söguna eins og eigi að gera. Á sama tíma og margir fái fréttir í gegnum Twitter og Facebook ákvað hún að láta það ekki nægja heldur yrði að gefa sér tíma til þess að skilja hlutina rétt, að kafa dýpra í stað þess að vera alltaf í yfirborðinu.

„Ég reyni að sýna mannlegu hliðina í hverri sögu. Að sýna fólkið sem ég mynda líkt og það séu systur mínar og bræður,“ sagði Camille Lapage á sínum tíma. James Estrin blaðamaður og ljósmyndari hjá New York Times, segir að þetta viðhorf hennar hafi alltaf skinið í gegnum vinnu hennar líkt og persónuleika.

„Vegna ofbeldisins sem hún áleit skyldu sína að greina heiminum frá höfum við misst Camille, vaxandi ljósmyndara við upphaf feril síns. Við syrgjum hana á sama tíma og við erum skilin eftir með minningar okkar, vinnu hennar og brostin loforð um marga óskrifaða kafla,“ segir James Estrin í minningarorðum um Camille Lapage á vef New York Times.

Andy Chatfield, sem kenndi henni við Southampton Solent háskólann, segir að Lepage hafi verið ástríðufull í baráttunni gegn óréttlæti og í raun hetja. Hún hafi aldrei óttast um sjálfa sig í þeirri viðleitni við að upplýsa heiminn um þær hörmungar sem fjölmargir búa við í heiminum.

Komið var með lík Camille Lepage til Frakklands á föstudag þar sem það verður krufið. Frönsk stjórnvöld hófu rannsókn á dauða hennar á miðvikudag en forseti Frakklands, François Hollande, hefur heitið því að ekkert veri til sparað til þess að komast að því hverjir beri ábyrgð á dauða ljósmyndarans.

Vefur Camille Lepage þar sem fjölmargar af myndum hennar er að finna

Minningarorð Lens, ljósmyndabloggs New York Times um Camille Lepage 

New Yorker minntist Camille Lepage í vikunni sem leið í máli og myndum

Minningarorð Washington Post um Camille Lepage

Minning BBC um Camille Lepage

Umfjöllun Guardian

Umfjöllun ABC News

Umfjöllun Aljazeera

Umfjöllun Huffington Post

Umfjöllun Le Monde

Camille Lepage við störf í Bangui í Mið-Afríkulýðveldinu þann 19. …
Camille Lepage við störf í Bangui í Mið-Afríkulýðveldinu þann 19. febrúar sl. AFP
Camille Lepage í Damara, 70km norður af Bangui þann 21. …
Camille Lepage í Damara, 70km norður af Bangui þann 21. febrúar sl. AFP
Franskir friðargæsluliðar og íbúar í Mið-Afríkulýðveldinu mæta í minningarathöfn um …
Franskir friðargæsluliðar og íbúar í Mið-Afríkulýðveldinu mæta í minningarathöfn um Camille Lepage þann 15. maí sl. í Bangui. AFP
AFP
Kista Camille Lepage hefur verið flutt til Frakklands en þar …
Kista Camille Lepage hefur verið flutt til Frakklands en þar verður lík hennar krufið. AFP
AFP
Sendiherra Frakklands í Mið-Afríkulýðveldinu, Charles Malinas sést hér ræða við …
Sendiherra Frakklands í Mið-Afríkulýðveldinu, Charles Malinas sést hér ræða við fjölmiðla í kjölfar morðsins á Camille Lepage. AFP
Þingmenn og ráðherrar í Frakklandi minntust Camille Lepage með mínútu …
Þingmenn og ráðherrar í Frakklandi minntust Camille Lepage með mínútu þögn í þingsal daginn sem lík hennar fannst. AFP
Ráðherrar minnast Camille Lepage, Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra, Michel Sapin, …
Ráðherrar minnast Camille Lepage, Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra, Michel Sapin, fjármálaráðherra, Segolene Royal, umhverfismálaráðherra, og Manuel Valls, forsætisráðherra. AFP
(
( AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert