Var þotan skotin niður á heræfingu?

Enn er leitað að malasísku farþegaþotunni.
Enn er leitað að malasísku farþegaþotunni. AFP

Malasíska farþegaþotan, sem var í flugi MH370 þegar hún hvarf sporlaust fyrir rúmum tveimur mánuðum, var skotin niður á sameiginlegri æfingu taílenskra og bandarískra hersveita. Að minnsta kosti ef marka má nýja bók blaðamannsins Nigel Cawthorne um hvarfið dularfulla.

Bókin kemur í verslanir í Ástralíu á morgun, 71 degi eftir að vélin hvarf er hún var á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Um er að ræða fyrstu bókina sem skrifuð hefur verið um hvarfið.

Cawthorne segir í upphafsorðum bókarinnar að fjölskyldur farþeganna muni „svo til örugglega“ aldrei fá að vita hver afdrif vélarinnar hafi orðið. En hann segir hins vegar frá kenningu manns að nafni Mike McKay, sem vann á þessum tíma á olíuborpalli í Suður-Kínahafi.

Hann segir að vélin hafi verið skotin niður stuttu eftir að hún hvarf af ratsjá malasíska hersins. Hún hafi síðan hrapað beinustu leið í Taílandsflóa.

Cawthorne komst að því að á þessum tíma hefðu heræfingar átt sér stað í Suður-Kínahafi, þar á meðal sameiginleg heræfing Taílendinga og Bandaríkjamanna. „Segjum sem svo að einn þátttakandinn hafi óvart skotið niður þotuna. Slíkir hlutir gerast. Enginn vill annað Lockerbie-slys, þannig að sá sem á í hlut hefur fulla ástæðu til að þegja yfir því,“ segir Cawthorne í bókinni.

Vísar hann til þess þegar farþegaþota var sprengd í loft upp yfir bænum Lockerbie í Skotlandi með þeim afleiðingum að 270 manns létu lífið fyrir um 25 árum.

243 farþegar, flestir Bandaríkjamenn, voru um borð sem og sextán manna áhöfn. Sprengju var komið fyrir í flugvélinni.

Cawthorne leiðir jafnframt að því líkur að annar svartur kassi hafi verið látinn falla í Suður-Indlandshafi til að tvístra leitarhópnum. „Eftir allt sem á hefur gengið, þá hefur ekkert brak fundist í Suður-Indlandshafi, sem er í sjálfu sér grunsamlegt,“ segir hann.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert