Bandarísk stjórnvöld krefjast þess að fá „skýrar vísbendingar“ um að Rússar hafi dregið herlið sitt frá landamærunum að Úkraínu og til herstöðva sinna. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að ekkert bendi til þess að svo hafi verið.
Í morgun fyrirskipaði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, öllu herliði landsins, sem hefur verið æfingar við landamærin að Úkraínu, að snúa til herstöðva sinna. Þá fyrirskipaði hann einnig rússneskum hermönnum að yfirgefa austurhluta landsins.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði fyrr í dag að herliðið væri enn á sama stað. „Við myndum vita og gætum því staðfest það ef rússneskar hersveitir hefðu yfirgefið svæðið,“ bætti Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, við.
Rússnesk stjórnvöld hafa einnig krafist þess að hernaðaraðgerðum úkraínska hersins gegn aðskilnaðarsinnum, sem eru hliðhollir Rússum, í austurhluta landsins verði hætt.