Lífshættulegur kjörseðill

Liðsmenn vopnasveita aðskilnaðarsinna í grennd við borgina Slovjansk í Donetsk-héraði …
Liðsmenn vopnasveita aðskilnaðarsinna í grennd við borgina Slovjansk í Donetsk-héraði á föstudag, andspænis þeim eru stöðvar úkraínskra hermanna. AFP

Líf kjörnefndarmanna er í hættu, þeir eru mjög hræddir og verða að fara huldu höfði,“ segir Sergei Takasénkó, einn af embættismönnum yfirkjörnefndar Úkraínu með aðsetur í Donetsk-héraði. Hann var ekkert að ýkja. Vopnaðir aðskilnaðarsinnar og ribbaldar, hliðhollir Rússum, ráða mestu í mörgum borgum í austurhéruðunum. Þeir fara hamförum og hóta þeim öllu illu sem íhuga að kjósa í þing- og forsetakosningunum sem fram fara í landinu í dag.

Sögurnar eru margar. Alexandra Vítalíjevna, skólastjóri í borginni Lúhansk, sem einnig er í austurhéruðunum, er í hópi mörg þúsund opinberra starfsmanna sem eiga að sjá um kjörstaði. Grímuklæddir uppreisnarmenn rændu henni fyrir nokkrum dögum í viðurvist nemendanna, stálu gemsanum hennar og fartölvunni og fóru með hana í lögreglustöð sem þeir réðu yfir. Henni var loks sleppt – en ekki er víst að hún láti mikið á sér bæra á kjördag.

Síðustu daga hafa margir fallið í átökum stjórnarhersins og uppreisnarmanna og talið að allt að tíundi hver kjósandi muni í reynd varla geta mætt á kjörstað vegna hótana og ofbeldis. Sumir munu þó grípa til þess ráðs að fara langa leið á bráðabirgðakjörstaði sem Úkraínustjórn hefur komið á fót utan við borgir sem uppreisnarmenn ráða.

Um 36 milljónir manna eru á kjörskrá í Úkraínu í þessum sögulegu kosningum sem gætu ráðið úrslitum um framtíð ríkisins. Skoðanakannanir eru óáreiðanlegar en líklegast er talið að auðkýfingurinn Petro Porosénkó verði efstur í forsetakjörinu, fái jafnvel meira en helming atkvæði strax í fyrri umferð. Hann varð á sínum tíma fyrstur auðkýfinga landsins, óligarkanna, til að taka klára afstöðu með mótmælendunum á Maidan-torgi í Kænugarði og nýtur þess nú.

Porosénkó hefur bent fólki á að ef hann nái ekki strax kjöri merki það að enn verði nokkur bið á að nýr forseti taki við eftir seinni umferðina. Slík óvissa henti bara óvinum þjóðarinnar sem vilji sundra ríkinu. Rök sem gætu hrifið. En stefna Porosénkós er ekki síður ráðgáta en framtíðin, hún hefur fram til þessa aðallega farið eftir vindáttinni. Stuðningsmenn hans segja á hinn bóginn að hann hafi þá þekkingu á efnahagsmálum sem þurfi til í landi sem er á barmi gjaldþrots. Hann hafi líka reynslu af stjórnmálum og kunni alla klækina. Aðrir segja að því sé líklegast að fátt breytist til batnaðar nái hann völdum sem reyndar eru fremur lítil hjá forsetaembættinu.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur ýmist sagt að kosningarnar yrðu skref í rétta átt eða lagt áherslu á að fullnægja verði kröfum aðskilnaðarsinna áður en þær verði haldnar. Á föstudag fullyrti hann að borgarastyrjöld væri þegar hafin í Úkraínu. En ráðamenn í Kænugarði segja að Pútín eigi sjálfur mesta sök á ofbeldinu með því að ýta undir átök.

Tengsl í austur eða vestur

Oft er bent á að minnst fjórðungur Úkraínumanna sé rússneskumælandi og eru þá íbúar Krím ekki taldir með. Mest er um rússneskumælandi fólk í austurhéruðunum og því kann að virðast eðlilegt að það vilji meiri tengsl við Rússland, jafnvel innlimun héraðanna. Í vesturhéruðunum líta flestir á sig sem Evrópumenn og finnst Rússland að mörgu leyti vera framandi Asíuland. En flestir Úkraínumenn eru tvítyngdir, tala bæði úkraínsku og rússnesku og menningartengsl þjóðanna eru geysimikil. Ekki má heldur gleyma að um helmingur manna í Donetsk og Lúhansk á sér úkraínsku að móðurmáli.

Nær þriðjungur allrar iðnaðarframleiðslu Úkraínu er í austurhéruðunum, þar eru námurnar og stálverin. Þar hafa menn lengi verið þeirrar skoðunar að þeir vinni en íbúar í vesturhéruðunum séu letingjar og afætur. En vestrænir fréttaskýrendur segja að skoðanir fólks í austurhéruðunum séu mjög skiptar. Sumir vilji að vísu sameinast Rússlandi en hinir séu mun fleiri sem vilji fyrst og fremst aukið forræði í héraðsmálum. Þrír af hverjum fjórum Úkraínumönnum segjast vantreysta öllum stjórnmálamönnum og það hlutfall er sagt enn hærra í austurhéruðunum.

Margir kjósendur á þessum slóðum trúa auk þess að einhverju marki skefjalausum hatursáróðri aðskilnaðarsinna og rússneskra fjölmiðla sem fullyrða að „fasistar“, með stuðningi Bandaríkjanna, hafi rænt völdum í Kænugarði. Þessir kjósendur munu vafalaust sitja heima. Þeim finnst engir frambjóðendur líklegir til að sinna hagsmunum austurhéraðanna.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur ýmist sagt að kosningarnar yrðu skref …
Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur ýmist sagt að kosningarnar yrðu skref í rétta átt eða lagt áherslu á að fullnægja verði kröfum aðskilnaðarsinna áður en þær verði haldnar. AFP
Sunnudagsblað Morgunblaðsins kom út um helgina.
Sunnudagsblað Morgunblaðsins kom út um helgina.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert