„Ég vil ekki bara að Bretland yfirgefi Evrópusambandið heldur vil ég að Evrópa yfirgefi Evrópusambandið,“ sagði Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins (UKIP) sem vann stórsigur með um 27% atkvæða í kosningunum til Evrópuþingsins sem lauk í gærkvöldi. Flokkur hans er nú stærsti breski flokkurinn á Evrópuþinginu.
„Ég trúi ekki að þessi fáni, þetta stef eða forsetinn sem enginn veit hvað heitir, standi virkilega fyrir það sem Evrópa á að vera,“ sagði hann.
Þjóðfylkingin (Front National) undir stjórn Marine Le Pen vann stórsigur í Frakklandi með 25% atkvæða en flokkurinn hefur helst barist fyrir hertri innflytjendalöggjöf.
Ljóst er að stjórnmálaflokkar andsnúnir Evrópusambandinu unnu verulega á í kosningum. „Ég held að það sé mjög mikil óánægja með þá vegferð sem Evrópuríkin fóru í við að bjarga bankakerfinu og setja auknar byrðar á almenning. Það held ég að hafi verið óvinsæl aðgerð og komi meðal annars fram í þessu,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Þó svo að stjórnmálaöfl sem annað hvort eru andsnúin frekari Evrópusamruna eða vilja draga sig úr Evrópusamstarfinu hafi náð góðum árangri eru einarðir Evrópusinnar enn í meirihluta á þinginu með um 70% þingsæta. „Breytingin sem ég sé fyrir mér er sú að hinir hefðbundnu flokkar, þ.e. annars vegar hófsama hægriblokkin og hins vegar sósíalistarnir muni slíðra sverðin í átökum sín á milli og taka höndum saman þvert yfir miðjuna og mæta þannig Evrópuandstæðingum á þinginu. Leiðtogar þessara hópa eru þegar farnir að tala þannig,“ segir hann.
Hann telur djúpstæða óánægju í kjölfar efnahagskreppunnar nú vera að bíta, en óljóst sé þó hvaða áhrif kosningarnar komi til með að hafa í aðildarríkjunum. „Það er eitt að senda þessi skilaboð á alþjóðavettvang en UKIP gekk t.d. ekki jafn vel í sveitastjórnarkosningunum og í Evrópuþings-kosningnunm.“
„Þetta eru mjög sterk skilaboð og leiðtogar Evrópuríkja þurfa að taka þau alvarlega, en hvort þau leiði til breytinga á starfsemi þingsins veit ég ekki,“ segir Eiríkur.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir úrslit kosninganna vera merkileg en verkefnið sé nú að vinna kjósendur til baka. Kristilegir demókratar, flokkur hennar, fór með sigur af hólmi í kosningum til Evrópuþingsins í Þýskalandi. „Stefna sem felur í sér samkeppnishæfni, hagvöxt og fleiri starfsmöguleika er besta svarið við vonbrigðum þeirra sem kusu á þann veg sem okkur líkar ekki,“ sagði hún.
Kjörsóknin var 43,1% sem er heldur meiri kjörsókn heldur en í síðustu kosningum til þingsins og í fyrsta skipti sem ekki dregur úr kjörsókn. Samt munar einungis 0,1% frá síðustu kosningum.