Leiðtogi eins af ríkisstjórnarflokkunum á Írlandi sagði í dag af sér vegna lélegs gengis í sveitarstjórnarkosningunum sem og kosningunum til Evrópuþingsins í gær. Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, segir að ríkisstjórnin muni þó ekki falla.
Útlit er fyrir að Verkamannaflokkurinn á Írlandi fái ekki einn mann kjörinn á Evrópuþingið og þá tapaði flokkurinn jafnframt miklu fylgi í sveitarstjórnarkosningunum á föstudaginn. Í ljósi niðurstaðnanna tilkynnti Eamon Gilmore, leiðtogi flokksins, á blaðamannafundi í kvöld að hann hugðist segja af sér.
„Við verðum, og munum, halda áfram að setja þjóðina og þarfir fólksins í landinu í fyrsta sæti. En til þess verðum við að hlusta á, taka eftir og bregðast við þeim skýru skilaboðum sem við fengum á föstudaginn,“ sagði hann.
Gilmore er einnig ráðherra utanríkis- og viðskiptamála.
Eftir þingkosningarnar árið 2011 gekk Verkamannaflokkurinn í samstarf við flokk Endu Kenny, Fine Gael, en ríkisstjórn þeirra hafði stærsta meirihluta í stjórnmálasögu Írlands á bak við sig.