Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, talar um pólitískan jarðskjálfta en Marine Le Pen, formaður Þjóðfylkingarinnar, segir að fólk hafi haft hærra og talað skýrar en áður. Andstæðingar Evrópusambandsins og þjóðernishreyfingar fóru með sigur af hólmi í Evrópuþingskosningunum en kosningu til Evrópuþingsins lauk í gær.
Samkvæmt frétt BBC var kjörsókn 43,1% sem er heldur meiri kjörsókn heldur en í síðustu kosningum til þingsins og í fyrsta skipti sem ekki dregur úr kjörsókn. Samt munar einungis 0,1% frá síðustu kosningum.
Í frétt BBC kemur fram að í Frakklandi hafi Front National (Þjóðfylkingin) unnið stórsigur og fengið 25% atkvæða eða 25 þingsæti. Hægri-miðjuflokkurinn UMP fékk 21% atkvæða en Sósíalistaflokkurinn, sem er við völd í Frakklandi, galt afhroð og fékk 14% atkvæða. Er það minnsta fylgi flokksins í Evrópuþingskosningum hingað til.
Í Bretlandi fékk Sjálfstæðisflokkurinn, sem líkt og Þjóðfylkingin í Frakklandi og Frelsisflokkurinn í Hollandi berst gegn Evrópusambandinu, 28% atkvæða. Íhaldsflokkurinn er með 24% og Verkamannaflokkurinn fékk 25%. Allt bendir síðan til þess að Græningjar hafi fengið fleiri atkvæði heldur Frjálslyndir demókratar.
Í Ítalíu er það vinstri-mið Demókrataflokkurinn, undir forsæti forsætisráðherra landsin, Matteo Renzi, sem vann stórsigur - fékk 40% atkvæða. Flokkur Silvio Berlusconi, Forza fékk einungis 16% atkvæða. Fimm stjörnu hreyfing grínistans Beppes Grillos fékk 22%.
Flokkur Angelu Merkel, Kristilegir demókratar fengu 35% á meðan samstarfsflokkur hennar, Sósíaldemókratar fengu 27% og AfD, sem berst gegn Evrópusambandinu fékk 7%.
751 sæti er á Evrópuþinginu. Sætafjöldi aðildarríkjanna fer eftir íbúafjölda. Þjóðverjar fá 96 sæti, síðan koma Frakkar með 74 sæti og Bretar og Ítalir með 73 sæti hvor þjóð. Löndin með fæsta íbúa, Lúxemborg, Malta, Kýpur og Eistland, fá sex þingsæti hvert. Þingmenn á Evrópuþinginu hafa verið kjörnir í almennri kosningu frá 1979 og eru þetta áttundu kosningarnar frá því að því fyrirkomulagi var komið á. Kjörtímabilið er fimm ár. Áður sátu fulltrúar þjóðþinganna á Evrópuþinginu.
Breski sjálfstæðisflokkurinn, UKIP, undir forystu Nigel Farage, vann stórsigur í Bretlandi en þetta er í fyrsta skipti sem einhver annar flokkur en Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn fer með sigur af hólmi í kosningum í Bretlandi, samkvæmt frétt Guardian.
Ukip eykur fylgi sitt úr 16,5% í síðustu kosningum til Evrópuþingsins árið 2009 í 28% nú. Fyrir tuttugu árum, í fyrstu Evrópuþingskosningunum fékk Ukip 1% atkvæða.