„Austur-Úkraína má ekki breytast í Sómalíu“

Petro Poroshenko, nýkjörinn forseti Úkraínu
Petro Poroshenko, nýkjörinn forseti Úkraínu AFP

Töluvert manntjón hefur orðið í átökum á flugvellinum í Donetsk í Úkraínu, eins og fram kom í frétt mbl.is í morgun. Nú hefur stjórnarherinn hins vegar náð fullri stjórn á flugvellinum á ný samkvæmt yfirlýsingu sem innanríkisráðuneyti landsins gaf frá sér fyrir stuttu. Í tilkynningu fulltrúa hins sjálfskipaða Donetsk ríkis kom fram að yfir 30 aðskilnaðarsinnar hefðu látist í tilraun til þess að taka yfir flugvöllinn sem hófst á mánudagsmorgun. Þessi tala er þó nokkuð á reiki, en aðrir embættismenn hafa lýst því yfir að allt að 50 manns hafi látið lífið. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Nýkjörni forsetinn Petro Poroshenko hefur lofað því að hafa hraðar hendur við að uppræta ástandið sem ríkir í landinu. Hann lýsti því yfir að Úkraína mætti ekki „breytast í Sómalíu“ og ítrekaði að hryðjuverkaógnir ætti að yfirbuga á nokkrum klukkustundum en ekki tveimur til þremur mánuðum. Poroshenko er 48 ára gamall milljarðamæringur og fyrrverandi utanríkisráðherra, en hann sigraði forsetakosningarnar síðastliðinn sunnudag með 54% atkvæða. 

Rússar höfðu fyrir kosningarnar lofað að viðurkenna úrslit kosninganna og eiga viðræður við sigurvegarann, en varanleg lausn mála virðist þó ekki vera í sjónmáli. Þannig hefur rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov lýst því yfir að ekki sé fyrirhugað að úkraínski forsetinn komi í diplómatíska heimsókn til Moskvu á næstunni. Jafnframt lýsti hann því yfir á blaðamannafundi að „raunverulegt stríð“ væri í vændum í Donetsk og Luhansk héröðunum.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert