Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur lofað að auka fjárhagsstuðninginn við uppreisnarmenn í Sýrlandi sem berjast gegn Bashar al-Assad og ríkisstjórn hans. „Ég vinn að því með þingmönnum öldungadeildarinnar til þess að styðja þá sem eru tilbúnir að berjast gegn hryðjuverkamönnum og ógeðfelldum einræðisherra,“ sagði Obama í dag.
„Við munum einnig veita þeim nágrannaríkjum hjálparhönd sem taka við flóttamönnum frá Sýrlandi,“ sagði Obama og nefndi sem dæmi Líbanon, Jórdanía, Tyrkland og Írak.
Mikil pressa hefur verið á Obama að auka aðstoð við Sýrlendinga á meðan blóðug borgarastyrjöld geisar. Margir óbreyttir borgarar hafa þurft að yfirgefa heimili sín, og jafnvel landið. Þá varði Obama einnig þá ákvörðun sína að senda ekki bandaríska hermenn til Sýrlands. „Það þýðir samt ekki að við viljum ekki hjálpa hinu sýrlenska fólki sem berst gegn einræðisherra sem ræðst á eigið fólk og veldur hungursneyð,“ sagði Obama.