Forsætisráðherra Pakistans, Nawaz Sharif, segir það „algjörlega óviðunandi“ að ófrísk kona hafi verið grýtt til dauða um hábjartan dag fyrir utan dómshús í borginni Lahore á þriðjudag.
Ættingjar hinnar 25 ára gömlu Farzana Parveen, grýttu hana til dauða vegna þess að hún hafði gifst manni án leyfis fjölskyldunnar.
Forsætisráðherrann hefur nú fyrirskipað að gripið verði strax til aðgerða og að skilað verði inn skýrslu um atburðinn ekki seinna en í kvöld, að því er segir í frétt á vef breska ríkisútvarpsins.
Eiginmaður konunnar, Muhammad Iqbal, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að lögreglan hafi staðið aðgerðalaus hjá er ættingjar konunnar drápu hana. „Þeir horfðu á þá myrða Farzana og gerðu ekkert. Við kölluðum á hjálp en enginn hlustaði. Einn af ættingjum mínum fór úr fötunum til þess að ná athygli lögreglunnar en þeir gerðu ekkert.“
Samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins var það ekki fyrr en konan lá látin í jörðinni sem lögreglan tók við sér og fór að yfirheyra vitni um hvað gerst hafði.
Fjölmörg „sæmdarmorð“ eru framin í Pakistan gegn konum á hverju ári.