Bjórdrykkja Breta fer sífellt minnkandi

Bjórþamb á öldurhúsum heillar Breta ekki eins og áður
Bjórþamb á öldurhúsum heillar Breta ekki eins og áður AFP

Sífellt minnkandi áhugi Breta á drykkju á öldurhúsum hefur orðið til þess að fjölmargir kráareigendur neyðast nú til þess að skella í lás. Tíðni drykkju utan veggja heimilisins hefur minnkað um tíu prósent árinu 2009 og virðast Bretar nú frekar kjósa að kaupa áfengi á lægra verði í stórmörkuðum og neyta þess heima.

Samkvæmt upplýsingastofnun Bretlands um heilsu og félagsleg málefni jukust heildaráfengisútgjöld landsmanna um 1,3 prósent milli 2009 og 2012 á meðan slík útgjöld utan heimilisins minnkuðu um 9,8 prósent. Auk þess minnkaði hlutfall karlmanna sem sagðist hafa drukkið áfengi síðastliðna viku úr 72 prósentum árið 2005 niður í 64 prósent 2012. Í tilfelli kvenna lækkaði hlutfallið út 57 prósentum í 52.

Minnkunin hefur verið enn meiri meðal ungmenna, en á meðan 61 prósent grunnskólanema á aldrinum ellefu til fimmtán ára sagðist hafa drukkið áfengi minnst einu sinni á árinu í könnun frá 2003 var hlutfallið komið niður í 43 prósent árið 2012.

Fjöldi öldurhúsa í landinu hefur minnkað í takt við drykkjuhegðun landsmanna, en þau voru alls 49.433 talsins árið 2012 saman borið við 67.800 árið 1982. Þetta telja margir fremur neikvæða þróun, en Bretland hefur lengi verið þekkt fyrir fjörugar krár og menninguna sem skapast í kringum þær. 

Kanadíski leikarinn Kiefer Sutherland er meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið, en hann er fæddur í Bretlandi. Sutherland lýsti því yfir að bresk öldurhús væru þau bestu í heimi og sjarmi þeirra langtum meiri en annarra landa. Jafnframt sagðist hann jafnvel vilja kaupa krá í Lundúnum einn daginn.

Stórleikarann Kiefer Sutherland langar til þess að kaupa krá í …
Stórleikarann Kiefer Sutherland langar til þess að kaupa krá í Lundúnum AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert