Foreldrar bandaríska hermannsins Bowe Bergdahl sendu honum hjartnæm skilaboð í dag en hann er nú að jafna sig eftir að hafa verið í haldi talibana í Afganistan í fimm ár.
Bergdahl er eini bandaríski hermaðurinn sem var í haldi í Afganistan frá því að stríðið hófst árið 2001. Honum var sleppt úr haldi á laugardag gegn því að fimm talibönum yrði sleppt úr fangelsinu í Guantanamo.
„Ég elska þig, Bowe,“ sagði móðir hans, Jani Bergdahl, í ávarpi til sonar síns sem hún flutti í sjónvarpi með eiginmann sinn, Bob, sér við hlið. Þau hafa ekki hitt eða rætt við son sinn frá því að hann var tekinn höndum í júní árið 2009.
„Gefðu sjálfum þér allan þann tíma sem þú þarft til að jafna þig. Þú þarft ekki að flýta þér. Þú átt allt lífið framundan.“
Hermaðurinn, sem er 28 ára, fær nú læknishjálp á hersjúkrahúsi í Þýskalandi. Enn er óljóst hvenær hann kemur heim til Bandaríkjanna.
„Það er svo langt síðan Bowe fór að það verður erfitt fyrir hann að koma til baka,“ sagði faðir hans. Hann líkti endurhæfingu hans nú við köfunarveiki, sagði að ef hann kæmi upp of hratt gæti það skaðað hann.
Bob Bergdahl gaf í skyn á laugardag að sonur hans ætti orðið erfitt með að tjá sig á ensku.
Bob átti erfitt með að halda aftur af tárunum í sjónvarpsávarpinu í dag. „Þegar þú ert tilbúinn að sjá þetta og heyra þetta, þá held ég að enskan þín komi til baka og ég vil að þú vitir að við elskum þig.“