Stórsýning með listflugi og leikurum sem túlkuðu innrásina í Normandí var sett á svið í gær í tilefni D-dagsins svonefnda þegar sjötíu ár voru liðin frá því að bandamenn réðust inn í Frakkland til að brjóta hernám nasista í Evrópu á bak aftur.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar og hundruð aldraðra uppgjafahermanna eru nú stödd í Normandí í Frakklandi til að taka þátt í hátíðahöldunum.
Innrásarflotinn við Normandí var sá stærsti í hernaðarsögu veraldar, því um 160.000 hermenn frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada réðust til inngöngu á norðurströnd Frakklands hinn 6. júní 1944 bæði úr lofti og á legi. 500 herskip, 3.000 landgönguprammar og 2.500 aðstoðarskip voru í flotanum.
Áætlað er að um 2.500 af hermönnum bandamanna hafi látið lífið þennan dag.