Pórósjenkó formlega forseti

Petró Pórósjenkó, forseti Úkraínu.
Petró Pórósjenkó, forseti Úkraínu. AFP

Petró Pórósjenkó er formlega orðinn forseti Úkraínu en hann sór embættiseið fyrir úkraínska þinginu í Kænugarði í morgun.

Pórósjenkó er 48 ára gamall og fimmti forseti Úkraínu. Hann var sigurvegari forsetakosninganna sem fram fóru hinn 25. maí sl. með 54,7 prósent atkvæða.

Pórósjenkó er oft kallaður „súkkulaðikóngurinn“ þar sem hann hagnaðist mikið á súkkulaðifyrirtæki sínu Roshen og telst nú sjöundi ríkasti maður Úkraínu

Í ræðu sem hann hélt við vígsluna kallaði hann eftir friði, öryggi og einingu og sagðist hvorki vilja stríð né hefnd þrátt fyrir þær miklu fórnir sem úkraínska þjóðin hefði neyðst til að færa að undanförnu.

Hann kallaði eftir því að aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu legðu niður vopn og lofaði þeim friðhelgi sem ekki hefðu blóð á sínum höndum.

Þá sagði hann að Krímskagi væri og yrði alltaf hluti af Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert