Abdel Fattah al-Sisi, fyrrverandi yfirmaður egypska hersins, sór í dag embættiseið sem forseti landsins, en sýnt var frá athöfninni í beinni útsendingu í egypsku sjónvarpi.
Sisi vann stórsigur í forsetakosningunum sem fram fóru í lok maí. Hann steypti Mohammed Morsi, sem er fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Egyptalands, af stóli í fyrra og hefur hann barist gegn stuðningsmönnum hans og Bræðralagi múslíma síðan þá.
„Ég sver við nafn guðs að ég mun vernda lýðveldið, virða stjórnarskrána, lögin og að ég muni bera hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti; einnig að vernda sjálfstæði þjóðarinnar og landsvæði,“ sagði Sisi við athöfnina.
Að því loknu yfirgaf hann húsnæði stjórnarskrárdómstóls landsins, þar sem athöfnin fór fram. Mikil öryggisgæsla var við húsið en fyrir utan höfðu stuðningsmenn forsetans safnast saman og veifuðu margir fánum.
Sisi mun síðar í dag vera viðstaddur móttöku í forsetahöllinni þar sem erlendir þjóðarleiðtogar verða gestir.