Slasaður í kílómetradjúpum helli

Mynd úr íslenska hellinum Búra.
Mynd úr íslenska hellinum Búra. Mynd/Þorsteinn Ásgrímsson

Þýskur hellarannsóknarmaður á sextugsaldri slasaðist þegar steinar hrundu á hann í leiðangri sem farinn var til að skoða dýpsta helli Þýskalands um helgina. Það tók einn leiðangursmannanna tólf klukkustundir að komast upp úr hellinum til að láta vita af slysinu, en hellirinn nær einn kílómetra niður í jörðina og hefur verið lýst sem völundarhúsi sem sé fullt af mjög djúpum lóðréttum göngum.

Hellirinn er rétt hjá Berchtesgaden í suðurhluta Þýskalands og fannst hann ekki fyrr en árið 1995. Það er svo aðeins á síðustu árum sem fólk hefur náð að rannsaka hann af viti, en maðurinn sem slasaðist var einn þeirra sem fundu hellinn fyrst árið 1995. 

350 metra lóðrétt göng

Um 200 manns koma að björguninni, en hún gæti tekið marga daga, samkvæmt heimildum BBC-fréttastofunnar. Flókið og umfangsmikið gangnakerfi hellisins gerir aðgerðina mjög erfiða, en lengstu lóðréttu göngin ná allt að 350 metra beint niður og þarf að fara þau með línum upp og niður. 

Maðurinn, sem er 52 ára, hefur ekki enn verið nafngreindur, en hann var á ferð með tveimur félögum sínum. Slysið átti sér stað á sunnudaginn, en fyrstu björgunarmenn komust ekki á vettvang fyrr en á mánudaginn. Stefnt er að því að koma upp grunnbúðum fyrir björgunarstarfið á 300 metra dýpi og reyna að koma á fjarskiptum við björgunarmenn neðar, en fjarskipti eru mjög erfið í hellum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert