Senda forseta Brasilíu gula spjaldið

Mótmælendum og óeirðalögreglu í Brasilíu hefur margsinnis lent harkalega saman …
Mótmælendum og óeirðalögreglu í Brasilíu hefur margsinnis lent harkalega saman í aðdraganda HM 2014. Ljósmynd/Midia Ninja

Mótmælendur í Brasilíu sem gripið hafa til aðgerða í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar í fótbolta eiga á hættu að sæta ofbeldi af höndum lögreglu og hervaldsins í viðleitni þeirra til að bæla niður mótmælin. Þetta segir Amnesty International.

„Skortur á þjálfun lögreglunnar, traust á getu hersins til þess að annast löggæslu í mótmælum og refsileysi skapar hættulega blöndu þar sem friðsamlegir mótmælendur lúta í lægra haldi,“ segir Atila Roque, framkvæmdastjóri hjá Amnesty International Brasilíu.

Ofbeldi gegn friðsamlegum mótmælendum

„Heimsmeistarakeppnin 2014 verður mikilvægur prófsteinn fyrir stjórnvöld í Brasilíu. Þau verða að nota þetta tækifæri til að stíga fram og tryggja að öryggissveitir sem annast löggæslu í mótmælum á meðan á keppninni stendur fremji ekki frekari mannréttindabrot,“ segir Roque.

Í skýrslu Amnesty International, They use a strategy of fear: Protecting the right to protest in Brazil sem fjallar um ofbeldi og valdníðslu öryggissveita Brasilíu, kemur fram að notkun á táragasi og gúmmíkúlum gegn friðsamlegum mótmælendum hafa átt sér stað sem og handahófskenndar handtökur og misbeiting laganna til að stöðva og refsa mótmælendum. Búist  er við að ekkert lát verði á slíku ofbeldi á meðan á keppninni stendur.

Netákall Íslandsdeildar Amnesty

Amnesty International hleypti af stokkunum nýrri herferð sem ber yfirskriftina „Fótboltamót án brota í Brasilíu“ og er tilgangur hennar að hvetja einstaklinga um heim allan að senda forseta Brasilíu, Dilma Rousseff, og þingforseta, Renan Calheiros, gula spjaldið og hvetja þá til að virða tjáningarfrelsi fólks og rétt þess til að koma saman með friðsömum hætti á meðan á heimsmeistaramótinu stendur.

Þann 5. júní síðastliðinn sendu aðgerðasinnar Amnesty International stjórnvöldum í Brasilíu tug þúsunda „gulra korta“ undirrituð af einstaklingum alls staðar að úr heiminum sem viðvörun til stjórnvalda um að þau verði að virða rétt fólks til að mótmæla með friðsamlegum hætti.

Íslandsdeild Amnesty hefur sent út netákall og hægt er að skrifa undir ákall til stjórnvalda í Brasilíu þar sem krafist er að þau virði tjáningarfrelsi fólks. Aðgerðina má finna á www.amnesty.is/netakall.

Sjá einnig: Elska fótbolta en fyrirlíta stjórnvöld

Mótmælendum og óeirðalögreglu í Brasilíu hefur margsinnis lent harkalega saman …
Mótmælendum og óeirðalögreglu í Brasilíu hefur margsinnis lent harkalega saman í aðdraganda HM 2014. Ljósmynd/MIdia Ninja
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert