Bandaríkin senda ekki landgöngulið

Barack Obama sagði í dag að Bandaríkin vilji gera sitt til að aðstoða Íraka í baráttunni við herskáa íslamista. Ekki hafi þó verið tekin ákvörðun enn um hvort gripið verði til loftárása. Obama undirstrikaði að Bandaríkin muni ekki senda hersveitir til landsins á nýjan leik.

Þetta kom fram þegar Bandaríkjaforseti ávarpaði fjölmiðla stuttlega fyrir framan Hvíta húsið í Washington í dag. Hann sagði ljóst að Íraksher hafi ekki bolmagn til að verjast hryðjuverkasamtökunum ISIS, eins og atburðir síðustu daga sanni.

Íröskum borgurum standi alvarleg ógn af ISIS og í ljósi þess hvað drífi hryðjuverkamennina áfram þá sé ljóst að bandarískum hagsmunum geti einnig verið ógnað. Hernaðarinngrip af hálfu Bandaríkjanna sé þó ekki yfirvofandi að svo komnu máli, en verið sé að skoða alla kosti í stöðunni.

„Fólk skyldi ekki halda að þetta sé eitthvað sem gerist á einni nóttu,“ sagði Obama. Hann vilji fullvissa sig um að bandaríska leyniþjónustan hafa allar mögulegar upplýsingar á reiðum höndum svo hægt verði að ráðast í hnitmiðaðar og markvissar aðgerðir sem skili árangri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka