Færeysk stjórnvöld og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa náð samkomulagið um að ljúka deilum þeirra um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum en sambandið greip til refsiaðgerða gegn Færeyingum síðastliðið sumar í kjölfar þess að færeysk stjórnvöld gáfu út einhliða síldarkvóta innan lögsögu sinnar.
Fram kemur í tilkynningu frá Evrópusambandinu að samkomulagið feli í sér að Færeyingar hætta „ósjálfbærum síldveiðum sínum“ en framkvæmdastjórn sambandsins leggi á móti fram drög að reglugerð þess efnis að fallið verði frá refsiaðgerðunum gegn Færeyjum sem meðal annars fólu í sér löndunarbann á færeyska síld og síldarafurðir í höfnum þess. Samkomulagið sé afrakstur langra viðræðna undanfarna mánuði á milli Mariu Damanaki, sjávarútvegstjóra Evrópusambandsins, og Jacobs Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja.
Ennfremur hafi verið samið um að Færeyingar falli frá kæru á hendur Evrópusambandinu vegna refsiaðgerðanna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og á grundvelli Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Haft er eftir Damanaki að hún sé sátt við að síldveiðideilan heyri brátt sögunni til. Færeyjar og Evrópusambandið geti í kjölfarið tekið upp þráðinn á ný verðandi samstarf í sjálfbærri nýtingu deilistofna.