Hætt verði að refsa Færeyingum

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins. AFP

Færeysk stjórnvöld og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa náð samkomulagið um að ljúka deilum þeirra um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum en sambandið greip til refsiaðgerða gegn Færeyingum síðastliðið sumar í kjölfar þess að færeysk stjórnvöld gáfu út einhliða síldarkvóta innan lögsögu sinnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Evrópusambandinu að samkomulagið feli í sér að Færeyingar hætta „ósjálfbærum síldveiðum sínum“ en framkvæmdastjórn sambandsins leggi á móti fram drög að reglugerð þess efnis að fallið verði frá refsiaðgerðunum gegn Færeyjum sem meðal annars fólu í sér löndunarbann á færeyska síld og síldarafurðir í höfnum þess. Samkomulagið sé afrakstur langra viðræðna undanfarna mánuði á milli Mariu Damanaki, sjávarútvegstjóra Evrópusambandsins, og Jacobs Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Ennfremur hafi verið samið um að Færeyingar falli frá kæru á hendur Evrópusambandinu vegna refsiaðgerðanna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og á grundvelli Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Haft er eftir Damanaki að hún sé sátt við að síldveiðideilan heyri brátt sögunni til. Færeyjar og Evrópusambandið geti í kjölfarið tekið upp þráðinn á ný verðandi samstarf í sjálfbærri nýtingu deilistofna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert