Mynd af aðdáanda brasilíska landsliðsins að kasta plastflösku ofan í ruslagám þar sem kona situr þykir segja allt sem segja þarf um misskiptinguna í Brasilíu. Myndinni er nú víða dreift í gegnum samfélags- og fjölmiðla.
Myndin var birt í gærkvöldi á Twitter og við hana stóð: Tvö andlit Brasilíu. Hún var þó tekin fyrir ári er Álfukeppnin fór fram í Brasilíu.
Las dos caras de Brasil. pic.twitter.com/2EdQ8zXhe3
— Real Gómez (@RealGomezRM) June 12, 2014
Brasilíumenn eru margir ósáttir við þann gríðarlega kostnað sem fylgir því að halda nú heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin orðið að fara í blóðugan niðurskurð á útgjöldum.
Fyrir opnunarleik keppninnar í gær sauð upp úr og beitti lögreglan táragasi á mótmælendur sem komu saman í Sao Paulo og fleiri borgum Brasilíu.
Í frétt Telegraph um málið segir að talið sé að það kosti brasilíska ríkið 1.300 milljarða króna, 6,7 milljarða punda, að halda keppnina, í landi þar sem milljónir búa í fátækrahverfum og heilbrigðisþjónusta er ekki á allra færi.
Tekjur munu koma á móti þessum kostnaði en Suður-Afríkubúar, sem héldu keppnina árið 2010, eru t.d. enn í mikilli skuldasúpu.