Uppreisnarmenn í Írak stærðu sig af því á Twitter í dag að hafa tekið 1.700 óvopnaða hermenn af lífi. ISIS samtökin sendu frá sér óhugnanlegar myndir af fjöldaaftökunum.
Hermennirnir, sem eru vopnlausir og í borgaralegum klæðum, sjást reknir áfram í röðum, þá látnir leggjast á magann í grafir í jörðina þar sem þeir voru skotnir. BBC hefur eftir talsmanni Írakshers, hershöfðingjanum Qassim al-Moussawi, að myndirnar séu óvisknar og fjöldamorðin hafi átt sér stað í Salahuddin-héraði, í útjaðri borgarinnar Tikrit.
Að sögn BBC hefur þó enn ekki fengist óháð staðfesting á að myndirnar séu sannar, en ekkert bendi þó til þess að þær séu falsaðar. Fréttaritari BBC í norðurhluta Írak, Jim Muir, segir að séu þær sannar og fjöldamorðin hafi átt sér stað þá sé það alvarlegasta voðaverk sem framið hafi verið í landinu frá innrás Bandaríkjamanna árið 2003.
Myndirnar eru sagðar sýna hvað varð um íraska hermenn í borginni Tikrit eftir að uppreisnarmenn náðu henni á sitt vald í vikunni sem leið. Myndbandsupptaka sem ISIS eru einnig sögð hafa sent frá sér sýnir hundruð manna flutt burt frá Speicher-herstöðinni í Tikrit og segir rödd á upptökunni að þetta séu hermenn sem hafi gefist upp.
Með ljósmyndum sem birtar voru fylgdi texti þar sem stóð að verið væri að leiða hermennina út í dauðann.
Leiftursókn íslamistahreyfingarinnar Isis í Írak í liðinni viku hefur komið mörgum í opna skjöldu. Viðnám yfirvalda í landinu hefur nánast ekkert verið. Þegar íslamistarnir tóku Mosul, næststærstu borg landsins, köstuðu hermenn frá sér vopnum og einkennisbúningum og hurfu á braut.
Fyrrverandi sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins gagnvart Sýrlandi, Lakhdar Brahmimi, segir að ástandið í Írak megi rekja til vanrækslu alþjóðasamfélagsins gagnvart stríðinu í Sýrlandi.
„Það er vel þekkt regla: Átökum af þessu tagi er ekki hægt að halda innan landamæra eins lands,“ sagði Brahimi í dag.