Þeir sem gerast sekir um að þvinga fólk í hjónaband eiga yfir höfði sér sjö ára fangelsi samkvæmt lögum sem tóku gildi í Bretlandi. Þar er lagt bann við þvinguðum hjónaböndum Breta og gildir bannið um breska þegna í öðrum ríkjum.
Það er því lögbrot að fara með ungmenni, sem eru búsett í Bretlandi, til annarra landa í þessum tilgangi. Samkvæmt frétt AFP er ekki óalgengt að farið sé með ungmenni til Indlands, Pakistans og Bangladess í þeim tilgangi. Tveir þriðju slíkra mála sem koma til kasta stofnunarinnar Forced Marriage Unit (FMU) sem rekin er á vegum breska ríkisins eru vegna þvingaðra hjónabanda í Suðaustur-Asíu.
Á síðasta ári komu 1300 slík mál til kasta FMU og voru karlmenn í 18% tilvika þeir sem þvingaðir voru í hjónaband. 40% fórnarlambanna voru 17 ára eða yngri og 75% eru yngri en 22 ára.